Setmyndun jökla

Landslag úr jökulmótuðu seti einkennist af stökum hæðum, dældum og hryggjum sem jafnvel geta hlykkjast langar leiðir og hefur sjáanlega ekki myndast við rof vatnsfalla. Ennfremur eru lausu jarðlögin víða af öðrum uppruna en berggrunnurinn sem undir liggur. Þessar vísbendingar opnuðu augu jarðfræðinga nítjándu aldar fyrir því að miklar ísbreiður hefðu legið yfir stórum hluta norðurhvels jarðar og mótað slíkt landslag í norðanverðri Evrópu og Ameríku.


Rofmáttur skriðjökla er gífurlegur því það set, sem þeir hrífa með sér, fellur ekki til botns eins og í ánum heldur berst með ísnum að jökuljaðrinum. Kornastærðin skiptir líka litlu máli því jökullinn rífur oft með sér stærri björg en vatnsföll fengju ráðið við. Hversu langt jökulruðningurinn berst er aðeins háð lengd skriðjökulsins. Framburður jökla flokkast undir set og kallast einu nafni jökulruðningur. Hann er ávallt ólagskiptur og ægir þar saman kornum af öllum stærðum. Jökulruðningurinn gengur síðan undir ýmsum nöfnum eftir því hvernig hann hefur myndast.


Skriðjöklarnir draga botnurðina fram með sér og ýta henni upp í jökulgarða við jökulsporðinn. Þar er leysingin hröðust og rennur því hluti botnurðarinnar skáhallt upp á yfirborð jökulsins þannig að hann verður þakinn jökulurð. Þunn urðarþekja flýtir yfirleitt fyrir sólbráð en verði hún of þykk tefur hún fyrir. Þegar skriðjökull hopar verða ísjakar stundum innlyksa undir urðinni og kallast dauðís. Með tímanum bráðnar ísinn og skilur dæld eftir sig. Fyllist slíkar dældir af vatni kallast þær jökulker. Þau má sjá í Kaldalóni og austan við Blönduós.


Háir jökulgarðar eða mórenur hrúgast upp fyrir framan jökla sem ganga fram og eru þeir bæði úr botnurðinni, sem jökullinn ber með sér, og lausum jarðlögum sem fyrir eru. Þessir jökulgarðar eru stundum kallaðir endagarðar og eru órækt merki um tímabundinn framgang jökuls. Þegar jökullinn hopar verður jökulgarðurinn eftir og má þannig oft sjá raðir bogadreginna jökulgarða hverja inn af annarri. Hver röð gefur þá til kynna að þar hafi jökullinn um stundar sakir snúið undanhaldi í sókn.


Skriðjöklar, sem renna fram með hlíðum fjalla, taka við öllu hruni sem fellur á ísinn úr hlíðunum fyrir ofan og bera það fram með sér. Kallast þetta jaðarurðir og liggja þær oft fram með jökultungum og þá einkum þar sem þær renna út úr þrengslum og út á flatlendi. Slíkar jaðarurðir sjást vel við Gígjökul norðan í Eyjafjallajökli (á leiðinni til Þórsmerkur) og við Kvíárjökul sem er skriðjökull og fellur suður úr Öræfajökli.


Stór jökulborin björg kallast grettistök. Þau liggja oft á víð og dreif á jökulrispuðum klöppum eða í jökulruðningum. Grettistök, sem eru úr sérkennilegum bergtegundum Norður-Svíþjóðar og Finnlands og finnast nú í Danmörku og Þýskalandi, gefa skriðstefnu ísaldarjökulsins til kynna. Grettistök borin með hafís frá Grænlandi finnast hér við sjó þar sem hafís ber að landi. Dæmi um slíkt grettistak er Grænlandssteinninn í Árvík á Ströndum.


Hæðir í landslagi, sem ísaldarjöklarnir náðu ekki að má út, kallast oft öldur eða jökulöldur. Þær eru ýmist núinn berggrunnur þakinn botnurð, sem einnig er kölluð dreif, eða úr jökulurð fyrri jökulskeiða.


Sjá: leiðarsteinar.