Jökulsprungur

Yfirborð jökla liggur ekki undir miklum þrýstingi og er því tiltölulega stökkt. Það nær ekki alltaf að fylgja undirlaginu eftir án þess að togþolinu sé ofboðið og myndast þá sprungur. Þetta er mest áberandi þar sem jökullinn rennur yfir eða fram hjá fyrirstöðu í landslagi. Jökulsprungur geta verið allt að 50 m djúpar en þá lokast þær vegna þess hve ísinn er orðinn mjúkur og þjáll á því dýpi.


Á venjulegum skriðjökli koma fyrir sprungur af ýmsum gerðum. Í jökulsporðum, þar sem enginn hliðarstuðningur er við ísinn, eru sprungurnar geislalægar, ofar og fram með jöðrunum myndast skersprungur sem liggja á ská upp í rennslisstefnuna. Þar sem skriðjöklar renna fram af berghöftum myndast þversprungur en langsprungur koma oft í ljós þar sem jökull hefur runnið um þrengsli eða öng og breiðir síðan aftur úr sér. Hringsprungur eru algengar umhverfis sigkatla en þeir eru algengir þar sem jarðhiti er undir jökulís eins og undir Skaftárjökli.


Þegar sólbráð er á jöklum leitar vatnið í sprungur og rásir uns það fellur niður í hyldjúpar jökulkvarnir.


Sumir skriðjöklar falla fram af svo hárri bergbrún að þeir brotna og hrynja fram af brúninni. Þeir safnast þá aftur saman fyrir neðan jökulfallið og halda rennslinu áfram. Slíkir jöklar eru oft alsettir bogadregnum skárum eins og til dæmis Morsárjökull.