Jökulrof

Þegar skriðjökull rennur fram rífur hann með sér urð úr undirlaginu. Undir jöklinum kallast þessi urð botnurð en jaðarurð þar sem jökullinn rennur fram með fjallshlíðum. Víða klofna jökulstraumar á fjallstoppum sem standa upp úr jökulstraumnum en sameinast svo að nýju neðan þeirra. Slík fjöll, umkringd jökli, kallast jökulsker. Þar sem svo jökulstraumar renna saman neðan jökulskerja sameinast jaðarurðir þeirra og mynda slóð urðar í og á jöklinum sem kallast urðarrendur.


Víða á leysingasvæðunum birtast furðuleg mynstur þar sem öskulög og áfok kemur upp á yfirborðið. Einnig berst botnurðin skáhallt upp á yfirborð jökulsporðanna og þekur þannig yfirborðið þegar ísinn bráðnar en hrynur svo fram af jökulsporðinum og myndar jökulgarð. Hopi jökullinn myndast nýr jökulgarður þar sem jökullinn stöðvast um sinn.


Á sprungnum jökultungum safnast sandur og möl oft fyrir í lægðum og nær sólin þá ekki að bræða ísinn undir mölinni. Umhverfis bráðnar ísinn aftur á móti hratt og áður en varir er lautin með sandinum horfin en í stað hennar blasir við ísstrýta hulin sandi og möl. Sandurinn hrynur svo af ísstrýtunni niður í næstu lægð og þannig koll af kolli. Í mikilli sólbráð safnast leysingavatnið saman í læki á jöklinum og steypist svo niður þar sem það finnur sprungur í ísnum.


Botnurðin, sem jökullinn dregur með sér og ávallt er undir honum, er bæði gróf og fínkorna. Stærstu steinarnir skera djúpar rispur niður í klappirnar en sandur og möl slípar þær og gefur þeim fínlega áferð. Rispurnar nefnast jökulrákir (jökulrispur) og eru ávallt samsíða skriðstefnu jökulsins. Jökulrispaðar klappir kallast hvalbök. Hvalbökin eru aflíðandi og vel slípuð á þeirri hliðinni sem vissi í jökulstrauminn en á hinni hliðinni, sem vissi undan straumnum, er brotsár þar sem ísinn kroppaði úr berginu um leið og hann rann fram af klöppinni. Ávallt eru hnullungarnir, sem drógust eftir klöppinni, núnir og oft einnig jökulrispaðir.


Í Kanada og á Írlandi á landsvæðum, þar sem ísaldarjökullinn náði lengst, ber talsvert á straumlínulöguðum jökulöldum í landslaginu, ekki ólíkum skeiðarblöðum á hvolfi. Þessar jökulöldur eru kallaðar drumlins á fræðimáli. Drumlin-öldurnar geta orðið margra kílómetra langar og vita ávallt með breiðari endann upp í straumstefnuna þannig að mótstaðan við ísinn verði sem minnst. Þær eru ýmist úr botnurð jökulsins sem skóp þær eða úr jökulruðningi jökla undanfarandi kuldaskeiða.


Margir þeir dalir og firðir sem okkur þykja tilkomumestir í landslaginu eru grafnir af ísaldarjöklunum. Þar sem jöklar gengu fram V-laga dali vatnsfalla víkkuðu þeir þá út og gerðu dalina U-laga . Skriðjöklar sem runnu úr þverdölum voru yfirleitt mun rýrari en jökullinn í aðaldalnum og rofmáttur þeirra því minni. Jökulsorfnir þverdalir eru því oft grunnir miðað við aðaldalinn og kallaðir hengidalir. Víða náðu hvilftarjöklar aðskildra dala að grafa skörð er þeir náðu saman. Varð úr þessu fjölbreytilegt landslag dala, afdala, hvilfta, skarða og horna.


Rofmáttur skriðjökla þverr ekki við sjávarmál heldur endist ísnum uns hann flýtur upp. Skriðjöklar sem falla niður af hálendinu í dali við strendur dýpka þá og skilja eftir firði. Þeir ná mestri þykkt í fjarðarbotnum en þynnast eftir því sem utar dregur. Því eru jökulsorfnir firðir oftast dýpstir innst en grynnstir í fjarðarmynninu þar sem jökullinn skildi oft eftir berghaft. Slíkt berghaft getur svo risið úr sæ þegar sjávarstaða lækkar og myndast þá stöðuvatn innan við berghaftið líkt og gerst hefur austur á Héraði milli Lagarins og sjávar. Víða má greina jökulgarða á landgrunninu og önnur ummerki jökulsins.


Ólíkt flestum öðrum löndum, sem lágu undir jökli á jökulskeiðum ísaldar, er mikil eldvirkni hér á landi. Jökull, sem liggur yfir eldstöð, hefur afdrifarík áhrif á gosið og veldur því að kvika, sem á þurru landi hefði myndað víðáttumikil hraun, hrúgast upp undir ísnum og vatninu sem bólstraberg eða bólstrabrotaberg í hryggjum og stöpum. Hryggirnir urðu til þar sem gosið náði ekki upp úr jöklinum en á kolli stapanna rann hraun eftir að gígbarmarnir náðu upp fyrir yfirborð vatnsins í jökulgeilinni. ◊.


Samspil jökla og landslags veldur því að jökulís stíflar dali og myndar þar uppistöðulón. Slíkt lón var í Fnjóskadal þegar jökull lá í Eyjafirði og stíflaði Dalsmynni. Lónið hafði afrennsli norður Flateyjardalsheiði. Strandlínur eftir þetta lón sjást víða í Fnjóskadalnum. Algengt er að vatn jökullóna lyfti jökuljaðrinum og hleypur það þá fram í flóðum sem kallast jökulhlaup. Grænalón vestan Skeiðarárjökuls hleypur t.d. fram í ánni Súlu. ◊.