Fátt prýðir íslenskt landslag fremur en fannhvítir tindar fjalla og jökulfannir. Jöklar eru algengir í köldu úrkomusömu loftslagi þar sem meiri snjór fellur en svo að hann nái að leysa yfir sumarið. Við slíkar aðstæður verða til snjófyrningar en lægstu mörk þeirra kallast snælína    eða hjarnmörk. Hæð snælínu er háð veðurfari og ræðst einkum af samspili úrkomu og lofthita. Hæð hennar er lægst á heimskautunum þar sem hún er við sjávarmál en hæst við hvarfbaugana. Í hlíðum Kilimanjaró í Austur-Afríku liggur snælínan í um 5500 m h.y.s. Hér á landi mun snælínan vera lægst, um 600 m, á Hornströndum. Sunnan Vatnajökuls er snælínan í um 1000 - 1100 m h.y.s., en 1300 − 1400 m við jökulinn norðanverðan. Í Ódáðahrauni liggur hún enn hærra því þar er Herðubreið, sem er 1682 m há og jökullaus.


Jökull er að mestu ís úr umkristölluðum snjó sem skríður undan eigin þunga. Um 1/10 hluti jarðar er hulin jökulís en það er einmitt álíka hlutfall og hér á landi. Mestur hluti jökla er innan heimskautsbauganna og eru jökulbreiður Suðurheimskautslandsins og Grænlands einar sér um 95% allra jökla jarðar. Jökulís Suðurskautslandsins nær um 3600 m þykkt og samanlagt rúmmál hans er um 24 · 106 km3 en það myndi nægja til að hækka yfirborð sjávar um 60 m ef allur sá ís bráðnaði.