Hitastig í jöklum

Að undanskildu þunnu yfirborðslagi að vetri til er hitastig íss í flestum jöklum utan heimskautasvæðanna við bræðslumark. Slíkir jöklar kallast þíðjöklar. Bræðslumark íss er 0°C við einnar loftþyngdar þrýsting en lækkar ofurlítið eftir því sem þrýstingurinn eykst. Við bræðslumark getur vatn verið bæði í fljótandi og föstu ástandi. Jöklar, þar sem hitastig er neðan bræðslumarks, eru kallaðir gaddjöklar. Allir íslenskir jöklar teljast vera þíðjöklar en jöklar heimskautasvæðanna eru yfirleitt gaddjöklar. Sumir stórir jöklar geta verið gaddjöklar efst til fjalla en eru þó þíðjöklar þar sem skriðjöklar þeirra  teygja sig lengst niður. Neðst í ísbreiðum Suðurskautslandsins, þar sem jöklarnir ná mestri þykkt og þrýstingurinn er mestur, er ísinn þíður eða við frostmark.


Hitastig jökulíssins skiptir miklu máli fyrir hreyfingar jökulsins því vatn, sem leysir úr ís sem er þíður, smyr undirlag jökulsins og auðveldar honum rennslið. Gaddjöklar, sem eru frosnir til botns, renna ekki á undirlaginu og því verða hreyfingar þeirra mun hægari.