Upptökin

Við upptökin þar sem brattinn er hvað mestur er landmótun vatnsfalla jafnan augljósust þar sem þau grafa gil og dali í landslagið. Væru vatnsföllin ein að verki litu gilin út sem þverhnípt gljúfur en veðrun og jarðskrið sjá til þess að dalurinn verður smám saman V-laga báðum megin farvegarins. Hér á landi er lítið um slíka dali vegna þess hve skammur tími er liðinn frá því að jökla leysti. Lengst er myndun slíkra dala komin hér á landi þar sem berg er straumflögótt og mikið er um skriður eins og á líparítsvæðum t.d. í Landmannalaugum.


Þar sem straumharðar ár renna út úr gilkjafti eða þröngum dölum víkkar farvegurinn skyndilega. Rofkrafturinn minnkar þess vegna og árnar hlaða upp aurkeilum og fylla dalina neðanverða. Efst í slíkum dölum falla vatnsföllin á eyrum (a) en þegar neðar dregur og nær rofmörkunum ná árnar ekki að grafa sig dýpra og rofkrafturinn fer í að víkka dalinn og farvegurinn að bugðast eftir flatlendinu.