Einkenni setsins

Lagskipting og flokkun eftir kornastærð er einkennandi fyrir set vatnsfalla. Grófasta setið sest til þar sem rofkraftur minnkar skyndilega eins og í aurkeilum í gilkjöftum en fínasta setið berst á haf út eða verður innlyksa um tíma í lygnum eða stöðuvötnum. Lagskipting í seti vegna vatnavaxta og flóða er algeng í íslenskum dragám og jökulám. Í vatnavöxtum skolast gróft árset lengra en ella.


Víxllögun verður yfirleitt á seti sem vatnsföll bera fram og leggja frá sér á áreyrum því að þar hlaupa þau sífellt úr einni kvíslinni í aðra. Við slíkar aðstæður verður rof og setmyndun á botninum óregluleg. Þversnið af slíku seti kallast víxl- og linsulagað. Set í aurkeilum og áreyrum er víxl- og linsulaga. Eyrar á óshólmum eru einnig víxl- og linsulaga en það set sem fellur til botns við ströndina þar sem straums frá vatnsfallinu hættir að gæta verður að skálaga setlögum. Á meira dýpi myndast leirlög með láréttri lagskiptingu.