Óseyrar (óshólmar) myndast við ármynni þar sem vatnsfall rennur í stöðuvatn eða sjó og straumar t.d. vegna sjávarfalla ná ekki að hreinsa ósinn og skola setinu langt út frá ströndinni. Við ströndina missir vatnsfallið bæði rofmátt sinn og flutningsgetu. Setið fellur til botns og hleðst upp með aflíðandi halla út á meira dýpi. Sífellt bætist við setmyndunina svo að ósinn færist lengra fram og áin hleður jafnóðum víxl- og linsulaga áreyrum ofan á skálaga setið sem áður hafði myndast.


Hér á landi eru óseyrar jökulvatna stærstar og má þar nefna óseyrar Jökulsár á Fjöllum, Jökulsár á Dal og Markarfljóts. Þar er sveitin Landeyjar en nafnið merkir óshólma eða grónar óseyrar. Óseyrar dragár sjást vel þar sem Fnjóská fellur í Eyjafjörð. Erlendis eru stórir óshólmar þar sem t.d. Níl, Mississippi, Ganges og Huang He (Hwang Ho, Gulá) falla til sjávar. Alþjóðaheitið yfir óshólma er delta.


Við breytingar á sjávarstöðu sökkva óshólmar ýmist í sæ eða rísa. Óshólmar, sem hlóðust hér upp við strendur í lok ísaldar þegar sjávarstaða var mun hærri en nú, sjást víða í landslaginu. Nefnast þeir malarhjallar og eru oft langt inn til dala eins og Vindheimamelar í Skagafirði, Melgerðismelar í Eyjafirði og malarhjallar í mynni Mosfellsdals. Setið í malarhjöllunum er vel skolað og yfirleitt tilvalið í steinsteypu.