Flutningsgeta vatnsfalla

Flutningsgeta vatnsfalls segir til um hversu mikið magn af bergmylsnu af öllum stærðum vatnsfallið flytur fram á tiltekinni tímaeiningu. Flutningsgetan er bæði háð straumhraða og rennsli fljótsins en ekki eingöngu straumhraðanum eins og rofmátturinn. Með rennsli vatnsfalls er átt við visst vatnsmagn t.d. m3 vatns sem rennur um farveginn á vissum stað á sekúndu hverri og er það því ávallt margfeldi af þversniði farvegar og straumhraða.


Rennsli = þversnið
farvegar
× straumhraði
(m3/s)   (m2)   (m/s)

Sandöldur á botni farvegar

Þegar botnskriðið færist eftir botni straumvatna hefur það tilhneigingu til að mynda gárur og jafnvel sandöldur. Myndun þeirra fer eftir straumhraða, dýpi og kornastærð. Sendinn botn í kyrru grunnu vatni er yfirleitt sléttur en gárur og seinna sandöldur myndast í straumvatni. Öldurnar rofna niður á þeirri hliðinni, sem snýr í strauminn, en hlaða á sig hlémegin og skríða því undan straumnum. Þetta gerist uns straumhraðinn hefur náð vissu marki þá snýst rof og áhleðsla við og öldurnar flytjast móti straumnum.


Botnskrið

Bergmylsna sem skríður fram sem botnskrið sverfur botninn og sést þetta best þar sem vatnsföll renna yfir klöpp á flúðum eða fossbrúnum. Möl og grjót, sem verður innlyksa í hringiðum, sverfur sig niður í klöppina og myndar að lokum djúpar holur sem kallast skessukatlar. Skessukatlar myndast einnig í klöpp undir jöklum þar sem vatn fellur niður um jökulsprungur.