Farvegur vatnsfalla

Vatnsföllin eru óþreytandi við að sverfa landið og grafa sér farvegi. Langsnið af farvegi vatnsfalls sem hefur ótruflað fengið að móta hann sýnir íhvolfan flöt. Mestur er brattinn við upptökin en fallhæðin minnkar eftir því sem neðar dregur og nær rofmörkum en þau eru þar sem vatnsfall fellur í sjó eða stöðuvatn. Tímabundin rofmörk geta myndast í stöðuvötnum þar sem skriður og hraun hafa stíflað farvegi eða jökull skilið eftir berghöft í landslaginu. Stíflur vatnsaflsvirkjana hafa sömu áhrif. Jarðhnik og misgengissprungur valda einnig truflun á þróun farvegar og legu hans. Í raun ná flest vatnsföll aðeins að nálgast fullkominn íhvolfan rofflöt vegna þess hve aðstæður í landslagi eru breytilegar á leið þeirra til sjávar.


Sjá meira um farvegi vatnsfalla.