Mismunandi rennslishraði í farvegi

Rennslishraði vatnsins í farvegi vatnsfalla er misjafn. Í beinum farvegi stórra vatnsfalla hægir vatnið á sér við botn og bakka vegna núningsmótstöðu en mestum hraða nær það nálægt yfirborði í miðjum farveginum þar sem dýpst er. Í bugðóttum farvegi verður hraðinn mestur og dýpið einnig mest í álnum við ytri bakkann


Bugður

Vatn, sem rennur með iðustreymi, hefur ávallt tilhneigingu til að slá sér til og mynda bugðótt rennsli. Þetta sést best þar sem fljótum hefur verið veitt eftir steyptum stokkum í litlum halla. Þar renna fljótin ekki til lengdar þannig að dýpsti állinn liggi eftir miðjum stokknum heldur verður hann bugðóttur og fer að sveiflast á milli bakkanna. Þannig sneiðir áin best hjá mótstöðu og nýtir fallorkuna á bestan hátt. Þar sem állinn sveigir fram með bakkanum er straumhraðinn mestur og myndast þar hylur en set sest til inni í beygjunni þar sem straumhraðinn er minni.


Bugður einkenna oftast þroskaðan hluta vatnsfalla og eru því algengastar þar sem vatnsföll nálgast rofmörk sín. Þær eru síbreytilegar því straumurinn grefur stöðugt úr ytri hlið bugðunnar þannig að þær stækka og færast neðar. Nái áin að stytta sér leið í næstu bugðu myndast oft bjúgvatn í bugðunni sem áin yfirgaf.


Algengt er að bugður myndist í dölum hér á landi þar sem ár hafa fyllt grunn stöðuvötn. Skyndileg breyting á rofmörkum t.d. vegna sjávarstöðubreytingar eða misgengis getur valdið því að bugðóttur farvegur grefst niður og verður að bugðóttu gljúfri.


Vatnsföll með bratta og ójafna farvegi eru sögð ung en þroskuð þegar farvegirnir ná að jafnast. Landsvæði, þar sem rof hefur sorfið flestar mishæðir niður að rofmörkum, kallast rofslétta. Rofsléttur verða aðeins til á mjög löngum tíma þar sem rof hefur staðið ótruflað um milljónir ára.