Hringrás vatns

[En: water cycle; De: Wasserkreislauf {m}]


Sú úrkoma sem berst inn yfir landið með vindum fellur þar ýmist sem regn eða snjór. Úrkoman ýmist gufar upp eða binst í gróðri, verður að ís í jöklum, rennur til sjávar með vatnsföllum eða sígur ofan í jarðlögin og myndar grunnvatn. Grunnvatn er aðeins lítið brot af vatnshvolfi jarðar eða um 0,6%. |T|


Þegar vatn hripar niður í jarðlögin fyllast öll holrúm neðan vissra marka. Þessi mörk kallast grunnvatnsflötur. Neðan grunnvatnsflatar eru jarðlög mettuð af grunnvatni en á milli hans og yfirborðs er rakt en ómettað lag þar sem flest holrúm eru fyllt lofti. Þetta svæði nefnist jarðrakasvæði.


Mjög er mismunandi hversu gegndræp jarðlög eru. Yfirleitt á vatn greiðari leið um jarðlög eftir því sem þau eru gropnari og holrými í þeim er meira. Þetta er þó háð því að holrýmin tengist hvert öðru og einnig því hversu stór holrýmin eru. Sé kornastærð jarðlaga mjög smá eins og t.d. í leir loðir vatnið við kornin vegna viðloðunar vatnssameindanna. Eiginleiki berglaga til að leiða vatn nefnist lekt þeirra.


Hluti grunnvatnsins nær miklu dýpi og hitnar þegar það kemst í snertingu við kólnandi heit berglög. Heitt grunnvatn, sem ber varma frá jarðlögum til yfirborðsins, kallast jarðhitavatn.


Dægursveiflu hita í andrúmslofti gætir aðeins á fárra cm dýpi undir yfirborði en árssveiflunnar gætir niður á um 10 - 30 m dýpi. Þegar árssveiflunnar hættir að gæta er hitastig nokkuð jafnt. Grunnvatn sem seytlar um bergið á þessu dýpi og telst ekki til jarðhita er yfirleitt með jöfnu hitastigi eða um 3 - 5°C. Hitastigið hækkar með hækkandi ársmeðalhita svæðisins. Þar sem vatnið sprettur fram á yfirborði kallast lindir eða kaldavermsl.