Blágrýtis- og árkvarteru svæðin

Á blágrýtissvæðunum og árkvarteru myndununum er þykkur rofinn jarðlagastafli með djúpum dölum. Víðast hvar á þessum slóðum skiptast á hallandi hraunlög og leirkennd millilög. Berggrunnurinn er, eins og áður segir, yfirleitt holufylltur og mjög þéttur en hátt til fjalla er þó helst að finna opnar sprungur og glufur sem vatn getur runnið eftir. Neðar í berglagastaflanum lendir grunnvatnið á þéttum millilögunum og rennur þá undan hallanum uns það sprettur fram í lindum í fjallshlíðum.


Þessar uppsprettur eru ekki vatnsmiklar en mynda oft lindalínur grænar af dýjamosa í hlíðum sem vita undan berglagahallanum. Á þessum svæðum eru flestar ár dragár með miklum sveiflum á rennsli eftir árstíðum. Neysluvatn er þarna einkum að finna í lausum jarðlögum í áreyrum og einnig í lindum þar sem það kemur fram undan stórum skriðum eða berghlaupum. Mest er um áreyrar og framhlaup á Norður- og Austurlandi. Ekki er óalgengt að lindir í skriðum gefi 1-10 l/s og úr góðum brunnum á áreyrum fást oft 5-20 l/s.


Á þessum svæðum hefur gengið erfiðlega að fá nægilega mikið og ómengað neysluvatn, einkum til matvælaframleiðslu. Mengunin verður yfirleitt af umgangi búfjár og ferðum fugla við vatnsból einkum þegar yfirborðsvatn rennur í þau í leysingum.