Stórar skriður og berghlaup

Berghlaup (framhlaup) verða þegar heilar fjallshlíðar hlaupa fram og mynda bergskriðu. Þær eru algengastar á blágrýtissvæðunum þar sem ísaldarjöklarnir skildu eftir djúpa og þrönga dali þegar þeir hopuðu. Víða á þessum svæðum hallar jarðlögunum þvert á dalina þannig að strikið er nokkurn veginn samsíða dölunum. Þegar stuðnings jökulsins naut ekki lengur við varð sú hlíðin þar sem jarðlögunum hallaði að dalnum óstöðug. Víðast hvar hagar þannig til að leirkennd millilög eru milli hraunlaganna. Millilögin urðu hál og því ákjósanlegir skriðfletir er grunnvatn seytlaði eftir þeim. Við slíkar aðstæður hrundu heilu fjallshlíðarnar niður í dalina og jafnvel þvert yfir þá og hátt upp í hlíðina hinum megin dalsins.


Lítið er vitað um hegðun berghlaupanna meðan á hruninu stendur, þó er víst að þau þurfa að ná miklum hraða til að komast þvert yfir dali og jafnvel 100 m upp í hlíðina andspænis eins og bergskriðan hjá Móbergi í Langadal hefur gert. Ekki eiga menn neinar viðhlítandi skýringar á myndun sérkennilegra hóla í skriðunum eins og t.d. í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu og við Steinsholtsjökul. Steinsholtshlaup varð 15. janúar 1967 er bergfylla (líklega 1,5 · 107 m3) hrundi úr móbergshamrinum Innstahaus niður á jökulsporð Steinsholtsjökuls sem er skriðjökull úr norðanverðum Eyjafjallajökli. Í sumum tilfellum sýnist svo sem skriðumassinn hagi sér líkt og vökvi. Því er ekki ólíklegt að loft, og í sumum tilfellum vatn, króist af inni í skriðunni meðan á fallinu stendur.


Víða hafa bergskriður stíflað ár í dölum og myndað uppistöðulón. Einna þekktust þessara berghlaupa eru Vatnsdalshólar, Hólabergsskriðan í Öxnadal, Haugahólar í Skriðdal og Stífluhólar hjá Skeiðsfossvirkjun í dalnum Stíflu í Fljótum í Skagafjarðarsýslu.

Tafla yfir stærstu berghlaupin hér á landi.



Sjá INDEXL → landmótun → hrun.



Sjá bergflóð.