Jarðsil

Með jarðsili og skriðuhlaupum er fyrst og fremst átt við skrið og hrun lausra jarðlaga undan halla fyrir áhrif þyngdarkrafts jarðar en rofkraftar vatns, jökla og vinda koma þar ekki við sögu nema óbeint. Vatnið flýtir einkum fyrir með því að minnka samloðun kornanna og eiga lausu jarðlögin þá auðveldara með að síga af stað undan hallanum. Frostlyfting jarðvegskorna í halla stuðlar að jarðsili og sér í lagi þar sem tíð umskipti frosts og þíðu eru eins og hér á landi. Frostlyftingin lyftir steinvölum hornrétt frá undirlaginu en þær síga hins vegar aftur lóðrétt niður þegar holklakinn hverfur í næstu þíðu.


Þar sem jarðvegur skríður hægt undan halla í hlíðum nefnist það jarðsil eða jarðskrið. Í vorleysingum verður jarðvegurinn vatnsósa og ósjaldan er hann þá á holklaka og mjög óstöðugur og eftirgefanlegur. Þannig síga oft tungur úr aur og leðju í ógrónum hlíðum af stað undan hallanum og í miklum rigningum getur þetta jafnvel komið aurskriðum af stað. Gróður, einkum trjágróður, bindur jarðveginn sem sést best á því að skriðuhætta eykst mjög í hlíðum fjalla erlendis þar sem skógur hefur verið ruddur í skíðalöndum. Víða undir Eyjafjöllum myndar jarðsil lárétt þrep í bröttum grasivöxnum hlíðum. Við þetta myndast stallar eða tröppur í hlíðunum. Umgangur sauðfjár hjálpar þar líklega einnig til.


Jarðlögum úr fínu seti, þar sem skiptast á sandur, méla og leir, er oft hætt við skriði, einkum þegar þau titra t.d. af völdum jarðskjálfta. Eitt frægasta dæmi um þetta er frá Alaska þegar eitt af úthverfum bæjarins Anchorage gjöreyðilagðist í skjálftanum 27. mars 1964.






Sjá INDEXL → landmótun → frostverkanir.