Allt berg sem kemst í snertingu við gufuhvolfið veðrast. Veðrun nefnist grotnun og molnun bergs á staðnum, á eða nálægt yfirborði jarðar. Hún veldur því að stærstu björg molna niður í smæstu agnir í tímans rás. Berg molnar vegna aflrænnar veðrunar og grotnar eða leysist upp vegna efnahvarfa. Oftast nær hjálpast þetta tvennt að og flýtir hvort fyrir öðru. Grotnun veikir bergið og molnun stækkar það yfirborð sem leysandi efni eiga aðgang að. Lífverur ýmiss konar taka einnig beinan eða óbeinan þátt í veðrun.


Þegar það efni sem fellur til við veðrun bergs færist úr stað kallast það rof. Efnið er þá ýmist uppleyst í vatni eða misgróf bergmylsna. Roföflin, sem ýmist eru fallvötn, jöklar, vindar eða þyngdarkrafturinn, flytja það efni sem til fellur niður á láglendi eða jafnvel alla leið til sjávar. Á leiðinni veðrast mylsnan enn frekar og grotnar og molnar niður auk þess sem hún sverfur það berg sem á vegi hennar verður. Landmótun gerist því við samspil veðrunar- og rofaflanna.


Bergtegundir veðrast mjög mishratt. Hraði veðrunar er einkum háður loftslagi, sýrustigi vatns, samsetningu og myndunarhætti bergs. Granít veðrast t.d. lítið sem ekkert í þurru eyðimerkurloftslagi, seint í röku kaldtempruðu loftslagi en í heitu og röku hitabeltinu veðrast það fremur hratt. Lengi hafa menn leitað að endingargóðu byggingarefni úr steini í hús og önnur mannvirki sem endist óbreytt um aldir en misjafnlega hefur þeim orðið ágengt. Grágrýti, eins og það sem Alþingishúsið var byggt úr um 1880, veðrast mun hraðar en átta þúsund ára hraunreipin sem eru á yfirborði hraunsins á börmum Almannagjár. Einnig má sjá greinilegan mun á veðrunarhraða hérlendis á gömlum legsteinum eftir því hvort þeir eru úr grágrýti, marmara eða graníti.


Sú breyting sem verður á yfirborði jarðar þar sem gufuhvolfið (atmosferan) og berghvolfið (lithosferan) mætast verður ekki á neinum skýrt afmörkuðum skilum við yfirborðið heldur breiðu belti sem nær jafn djúpt niður og loft og vatn ná að þrengja sér niður í bergið. Þar gætir ekki einungis áhrifa vatnshvolfsins heldur einnig lífríkisins. Á þessu belti er bergið gropið, einkum ungt berg sem alsett er holum, glufum og sprungum og því óvarið gegn ýmsum vatnslausnum sem smjúga um það og valda bæði aflrænum og efnafræðilegum breytingum.


Vatn er einn af mikilvægustu þáttum veðrunar. Það stuðlar að aflrænni veðrun með ísmyndun og frostþenslu og svo er það einnig einn besti leysirinn fyrir margar steindir. Leysnihraði er mjög háður hitastigi. Lætur nærri að hann fimmfaldist að meðaltali við að hitastig vatnsins hækkar úr 4,5°C í 25°C. Við veðrun myndast leir, jarðvegur og þau uppleystu efni sem fljótin bera til sjávar. Jarðvegurinn og þær lífverur sem í honum þrífast flýta fyrir veðruninni. Hann getur því bæði talist afleiðing og síðar orsök veðrunar.