Landmótun

Landslagið, ásýnd jarðskorpunnar sem blasir við okkur, mótast af samspili innrænna og útrænna afla. Innrænu öflin, sem fá orku sína frá geislavirkum efnum í iðrum jarðar, hlaða upp hraunlögum lag ofan á lag með eldvirkni og kýta saman setlög í himinhá fellingafjöll þegar þau hnika jarðskorpunni til. Hins vegar sækja útrænu öflin, sem birtast okkur í veðrum og vindum, orku sína til sólar. Þau vinna verk sitt hægt en bítandi og rífa niður það sem innrænu öflin hlaða upp. Skjótustum árangri ná útrænu öflin með vatninu sem þau nýta sér í ýmsum myndum við iðju sína.