Varmamyndun og möttulstrókar

Við klofnun geislavirkra efna í jarðmöttlinum myndast mikill varmi. Vegna þess hve berg er slæmur varmaleiðari mynda iðustraumar eins konar uppstreymisstróka sem bera heitt og um leið eðlisléttara efni upp á við í möttlinum og flýta þannig fyrir varmaútstreyminu svo jafnvægi náist. Þessir möttulstrókar haga sér líkt og hlýtt og eðlislétt loft sem stígur upp og lyftir sér upp í gegnum kalt loft og myndar þannig háreista skýjabólstra.


Talið er að iðustraumarnir myndi 20 - 30 staðbundna möttulstróka þar sem efnið stígur upp og dreifist síðan til allra átta undir jarðskorpunni. Einn þessara möttulstróka er undir Íslandi.


Yfir möttulstrókunum eru svokallaðir heitir reitir og þar er eldvirkni óvenjumikil. Heitir reitir standa hátt því undir þeim er jarðmöttullinn heitari og þess vegna eðlisléttari en umhverfið. Er þetta talin vera skýringin á því að Ísland skuli yfirleitt vera til. Tiltölulega þungur berglagastafli landsins er borinn uppi af möttulstróknum og þess vegna í flotjafnvægi við sjávarbotninn umhverfis.