Flekaskilin - miðhafshryggirnir

Jarðskorpan gliðnar um rekhryggina en hraunbráð vellur upp á milli jaðranna og segulmagnast „rétt“ eða „öfugt“ í ríkjandi segulsviði.


Atlantshafshryggurinn, sem liggur eftir miðjum botni Atlantshafsins, er einmitt slíkur rekhryggur. Hann stendur víða 2 - 3 þús. metra yfir botninn hvoru megin og sums staðar ná tindar hans upp úr sjónum og mynda eyjar. Stærst þessara eyja er Ísland sem borið er uppi af eðlisléttum möttulstrók. Mikill sigdalur gengur eftir miðjum hryggjarásnum og líkist hann Þingvallalægðinni enda myndaður við siggengi líkt og hún.


Á mörgum stöðum hliðrast hryggjarásinn um þversprungur með þvergengjum en svo kallast sá hluti þeirra sem er með virku sniðgengi. ◊. Þversprungurnar eru ávallt samsíða rekstefnu flekanna og þær stærstu eru skammt norðan við miðbaug en næst Íslandi eru stærstar Charlie-Gibbs þversprungan vestur af Írlandi og Jan Mayen þversprungan. Tjörnes-þvergengið er af þessu tagi og tengir það Kolbeinseyjarhrygg við norðurhluta Austur-gosbeltisins. Álíka þvergengi myndar San Andreas misgengið við vesturströnd Bandaríkja Norður-Ameríku þar sem Austur-Kyrrahafs-hryggurinn hliðrast norður með vesturströnd Norður-Ameríku.


Rannsóknir benda til þess að heitir reitir séu mjög staðbundnir og geti verið virkir tugi milljóna ára. Heitu reitirnir eru oftast á rekhryggjunum eins og Ísland, eða í nágrenni þeirra, en þá er einnig að finna víðar t.d. er einn undir Hawaii-eyjum, þ.e.a.s. undir miðjum Kyrrahafsflekanum.


Líklegt er að flekaskilin geti rekið yfir kyrrstæða möttulstrókana. Berist rekbelti miðhafshryggjanna verulega út af möttulstrók fer venjulega svo að hluti þess, næst stróknum, deyr út, en nýtt gos- og rekbelti myndast yfir honum. Þetta getur skýrt hvernig rekbelti Íslands virðast hafa brotnað upp og færst til eftir því sem tíminn leið.


Vegna mikillar eldvirkni heitu reitanna myndast slóði gosefna út frá rekhryggjunum þannig að þverhryggur myndast. Slíkir þverhryggir heita dauðir hryggir. Þessir dauðu skjálftalausu hryggir gefa hreyfingu jarðskorpuflekanna til kynna miðað við heitu reitina. Af þessu tagi er hryggurinn milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlandseyja. Hann tók að myndast þegar möttulstrókurinn varð virkur fyrir um 60 - 70 milljónum ára og Grænland klofnaði frá Bretlandseyjum er Atlantshafsbotninn byrjaði að myndast.