Botnskriðskenningin

Botnskriðskenningin [seafloor-spreading hypothesis], er fram kom sem tilgáta 1962 (Harry Hess 1906-1968 ), gerir ráð fyrir því að undir miðhafshryggjunum stígi upp möttulefni sem þrengi sér upp í sprungur þegar þær myndast á jarðskorpunni um leið og hún gliðnar á hryggjunum.


Segulmælingar leiddu í ljós aflöng segulfrávik samsíða miðhafshryggjunum þar sem skiptist á rétt og öfugt segulmagnað berg hafsbotnsins. Þessi frávik stafa af umsnúningi tvípóla segulsviðs Jarðar, en orsakir þeirra eru óþekktar. Þegar bergkvika storknar segulmagnast hún í samræmi við ríkjandi segulsvið jarðar á hverjum tíma. Rétt segulmagnaða bergið er því frá þeim skeiðum er segulskautin höfðu svipaða afstöðu og nú en það öfugt segulmagnaða er frá þeim skeiðum er afstaða segulskautanna var öfug við núverandi stöðu þeirra. Hvert segulskeið virðist ná yfir u.þ.b. 1 milljón ára. Segulsviðsmælingarnar styrktu því botnskriðskenninguna og þar sem lengd hinna yngri segulskeiða var þekkt var rekhraðinn því mældur út frá hryggjunum til beggja átta. Samkvæmt þessum mælingum er talið að rekhraði á Reykjaneshrygg sé um 1 cm á ári í hvora átt, en í Suður-Kyrrahafi allt að 18 cm á ári við Nazca-flekann.


Nákvæmar mælingar á upptökum jarðskjálfta sýndu að þeir verða á skýrt afmörkuðum beltum sem liggja eftir hafsprungunum á hryggjunum annars vegar og við djúpálana og fellingafjöllin hins vegar. Einnig kom í ljós að eðli skjálftanna var að ýmsu leyti ólíkt eftir því hvort upptökin voru á úthafshrygg, í djúpálunum eða á belti meðfram fellingafjöllunum.



Sjá síður um flekakenninguna.