Lekt berglaganna skiptir miklu máli fyrir jarðhita. Með lekt er átt við hversu gegndræp eða vatnsleiðandi berglögin eru. Þeir þættir sem skipta mestu máli í sambandi við lekt bergsins eru samliggjandi holrými og sprungur. Lektarmælingar sýna að ung hraun eru lekust en síðan fer hún minnkandi eftir aldri berglaga. Gömul berglög eru ávallt holufylltari en þau sem yngri eru. Þess vegna er lektin mest í berglögum frá ár- og síðkvarter. Þar skiptast á basaltlög mynduð á hlýskeiðum ísaldar, og móbergs-, bólstrabergs- og molabergslög mynduð á jökulskeiðum ísaldar.



Þau jarðlög sem leiða jarðhitavatnið hvað best eru:

  1. Gropin berglög eins og blöðrótt og sprungin hraunlög, bólstraberg  og grófgerð móbergs- og molabergslög.

  2. Berglög alsett sprungum og glufum einkum, á virkum sprungusvæðum.