Háhitasvæði

Þegar hitastigulskort af landinu er skoðað sést að hitastigullinn er áberandi mestur á virku gosbeltunum. Ekki er þar þó um samfellt jarðhitasvæði að ræða heldur greinist hann í um 20 einstök svæði, svokölluð háhitasvæði. Þau liggja innan virku gosbeltanna þar sem upphleðslan er í fullum gangi.


Háhitasvæðin einkennast yfirleitt af miklum ummyndunum bergs á yfirborði og auk þess eru þar algengir gufu- og leirhverir. ◊. Í gufuhverunum er gufan oft yfirhituð, þ.e. yfir 100°C og kemur því upp með nokkrum þrýstingi. Grunnvatnsborðið er vanalega nokkuð neðan yfirborðsins. ◊. Nái gufan að þéttast við yfirborðið súrnar hún og bergið grotnar í sundur þannig að leirpyttir myndast með blágráum kraumandi leir. Liturinn stafar af örsáum kristöllum úr brennisteinskís, FeS2.


Háhitasvæðin eru ávallt tengd virkum eldstöðvakerfum með sprungusveimum og viðeigandi eldvirkni og innskotum eins og háhitasvæðin á Reykjanesskaganum. Víðast hvar utan Reykjanesskagans eru þau jafnframt tengd megineldstöðvum með ísúru og súru bergi og oft einnig öskjumyndun. Tvö háhitasvæði, Hveragerði og Geysissvæðið, eru þó á mörkum þess að geta talist liggja innan gosbeltanna því þau tengjast megineldstöðvum sem hættu að gjósa á næstsíðasta jökulskeiði eða fyrr.


Ólíkt lághitasvæðunum virðist vatn háhitasvæðanna komið skammt að og oftast hefur það fallið sem úrkoma í nágrenni háhitasvæðanna.