Kvikuþrær og kvikuhólf

Kvikan í kvikuþrónni þrengir sér inn í togsprungur jarðskorpunnar og leitar upp þar sem þrýstingur er minnstur. Mæti kvikan fyrirstöðu á leið sinni getur hún átt það til að þrýstast milli láréttra laga og mynda innskot eins og lagganga (sillur) eða bergeitla.  Við vissar aðstæður virðist sem þessi innskot nái að mynda eins konar kvikuhólf á 1 til 3 km dýpi og geta þau verið 20 - 200 km3 að stærð. Einnig er líklegt að rætur gangaþyrpinga neðst í skorpunni breytist smám saman í kvikuhólf sem bræðir sér leið upp í efri hluta jarðskorpunnar. Talið er að kvikuhólfin geti ýmist verið linsu- eða kúlulaga og jafnvel að þau stærstu standi sem sívalningur í skorpunni. Kvika kvikuhólfanna er albráðin andstætt kviku þrónna þar sem aðeins er um hlutbráð að ræða. Mörg stór innskot hér á landi eru vafalítið forn grunnstæð kvikuhólf. Dæmi um slík storknuð kvikuhólf eru Eystrahorn (Hvalneshorn) og Slaufrudalur í Lóni og Vestrahorn austan Hornafjarðar.


Sum eldstöðvakerfi sækja kviku sína beint í þrær í kvikulaginu en önnur fá kvikuna úr grunnstæðum kvikuhólfum sem tengjast þróm niðri í kvikulaginu. Dæmi um fyrrnefndu eldstöðvakerfin eru Hekla, Torfajökull, þrjú vestustu kerfin á Reykjanesskaga og ef til vill Vestmannaeyjakerfið en þau eru öll talin fá kviku sína beint úr kvikuþróm. Krafla og Grímsvötn eru dæmi um síðarnefndu eldstöðvakerfin sem fá kviku sína úr grunnstæðum kvikuhólfum.