Stuðlað storkuberg: Þegar kvika storknar og kólnar minnkar rúmtak efnisins. Kraftarnir, sem myndast við þessar rúmmálsbreytingar, losna á auðveldastan hátt með því að mynda marghyrnt sprungumynstur, oftast sex- eða fimmhyrnt. Neðst í hraununum eru stuðlarnir sem myndast á þennan hátt reglulegir og ávallt hornréttir á kólnunarflötinn. Ofar og nær yfirborði hraunanna er lag smágerðra óreglulegra stuðla sem mynda kubbaberg. Þetta óreglulega lag er víða horfið á gömlum hraunum vegna rofs, samanber Kirkjugólfið á Kirkjubæjarklaustri. Víða sjást mjög sérkennilegar myndanir stuðla eins og til dæmis í gömlum gígfyllingum þar sem gjallkápa gígsins hefur máðst burtu við rof eins og t.d. í Hljóðaklettum. Þekktar stuðlabergsmyndanir hérlendis eru t.d.: Gerðuberg í Hnappadal, Kirkjugólfið að Klaustri, Dverghamrar á Síðu, við Svartafoss í Skaftafelli og við Litlanefsfoss í Hengifossá í Fljótsdal.





Sjá um stuðla í bergi.


Til baka í ytri einkenni.