Hraungúlar verða til þegar seigfljótandi rýólítkvika brýst upp á yfirborðið og hrúgast upp yfir gosrásinni og myndar þannig tvö til þrjú hundruð metra há keilulaga fjöll. Slík gos eru oft kölluð troðgos. Berg hraungúlanna er oftast mjög straumflögótt og springur auðveldlega við frostveðrun og flagnar því mjög. Þunnar flögurnar mynda skriður sem sífellt síga undan hallanum og eru hlíðar hraungúla því oftast ógrónar með öllu. Oft er berg hraungúlanna ljósara en bergið umhverfis og eru þeir því jafnan áberandi í landslaginu. Þekktustu hraungúlar eru Mælifell norður af Búðum á Snæfellsnesi, Hlíðarfjall og Jörundur við Kröflu, Hágöngur norðan Köldukvíslar og Móskarðshnúkar austur af Esju.


Til baka í föst gosefni.