Íslenskt gosberg er flokkað eftir hlutfalli efna í kvikunni. Storkni gosbergið sem innskotsberg eða djúpberg verður ásýnd þess önnur þó efnasamsetningin sé lík. Eins og fram kemur í töflu |T| eiga gosbergstegundirnar sér samsvörun í innskotsbergtegundum.


Gabbró er dökkleitt stórkornótt basískt djúpberg, oftast nær grænleitt, einkum ef það er ummyndað. Helstu frumsteindir í gabbrói eru kalsínríkur plagíóklas, ólívín, pýroxen og seguljárnsteinn. Gabbró finnst víða hér á landi í storknuðum kvikuþróm og sem innskot, t.d. í Vesturhorni og Stokksnesi við Hornafjörð, Eystrahorni í Lóni, Þorgeirsfellshyrnu og Kolgrafarmúla á Snæfellsnesi.


Díórít er fremur smákornótt djúpbergstegund.


Granófýr er súrt fremur fínkornað dílótt, oftast kvars-dílótt, granít. Granófýr finnst hér á landi í storknuðum kvikuþróm eða innskotum, einkum í Slaufrudal og Eystrahorni í Lóni, Vestrahorni við Hornafjörð og einnig í Lýsuhyrnu á Snæfellsnesi.


Granít er súrt stórkornótt djúpberg. Hér á landi er granít sjaldgæft en finnst þó í innskotum í Vestrahorni, Slaufrudal og Eystrahorni. Erlendis er granít algengt og er þó oft nær eingöngu myndað úr ortóklas-feldspötum og kvarsi. Natrínríkir feldspatar finnast þar einnig ásamt múskóvíti og bíótíti. Granít er venjulega ljósgrátt eða rauðleitt með dökkum yrjum. Granít er algengast í rótum fellingafjalla, einkum í stórum berghleifum. Það myndast sennilega þegar úthafsplata rennur undir meginlandsplötu og veldur hlutbráðnun í meginlandsplötunni. Granít er sjaldgæft hér á landi en finnst þó í stórum storknuðum kvikuþróm og ber þess merki að vera myndað fremur nálægt yfirborði, líklega við hlutbráðnun basísks bergs. Granít og granófýr, sem er náskylt því, finnst ávallt í innskotum í tengslum við basísku bergtegundina gabbró.