Harka (H:) steinda fer eftir styrkleika tengjanna milli atóma eða jóna í kristalnum. Eftir því sem tengin eru sterkari verður steindin harðari. Harkan er því breytileg eftir tegundum steindanna. Rétt eins og demantur, sem er harðastur steinda, rispar gler, þá getur kvars rispað kalsít því að harðari steindin rispar ávallt þá sem mýkri er. Árið 1822 birti austurrískur bergfræðingur, Friedrich Mohs, kvarða yfir hörku steinda sem byggir á þessum eiginleika steindanna. Fyrst eru taldar mýkstu steindirnar og síðast hinar harðari. Kvarðanum er skipt í 10 stig og hefur hvert þeirra sína einkennissteind til viðmiðunar.