Halít

Halít, (steinsalt , matarsalt) er eitt af þeim efnum sem flestir þekkja. Það er gert úr frumefnunum natríni og klóri og því táknað með efnaformúlunni NaCl. Þegar matarsalti er hellt í heitt vatn leysist það auðveldlega upp uns lausnin mettast. Í vatninu myndar saltið jónirnar Na+ og Cl-.  Sé saltlausnin kæld sést að nýir saltkristallar byrja að myndast og falla til botns. Við slíkar aðstæður raða jónirnar sér saman í hlutföllunum 1:1 og parast þannig saman að sérhver natrínjón (Na+), er umkringd klóríðjónum (Cl-1).  Radíus natrínjónarinnar er 0,95 nm og því er hún mun smærri en klóríðjónin sem hefur 1,81 nm radíus.  Natrínjónin fellur því nánast inn í holrýmið milli klóríðjónanna þannig að atómkjarnarnir liggja eins þétt saman og kostur er. Þetta er einnig orkulægsta staða atómkjarnanna við þessar aðstæður. Við kristöllun leitast efnisagnirnar ávallt við að koma sér fyrir í sem orkulægstri stöðu í kristalnum.


Víða við strendur er sjávarsalt unnið úr sjó og má í því sambandi nefna Guérande við ósa Leiru (Loire).



Saltvinnsla á ekru í Viet Nam ◊.



Saltvinnsla í hálendinu við Maras nálæt Cusco í Perú. ◊.