Síbreytilegt yfirborð jarðar

Þegar jörðin kólnaði storknaði ysta lagið og myndaði jarðskorpu eða berghvolf [stinnhvolf, lithosfera] sem flýtur á seigfljótandi lagi efst í möttlinum og kallast það ýmist deighvolf, seighvolf eða lághraðalag.


Möttullinn kólnaði einnig og storknaði en þar er hins vegar talsverð varmamyndun vegna kjarnaklofnunar geislavirkra efna. Varmamyndunin varð meiri en svo að bergið næði að leiða varmann jafnóðum til yfirborðsins. Þegar svo er ástatt í lofti og vökvum myndast iðustreymi við það að heitt og eðlislétt efni stígur upp en kaldara og jafnframt eðlisþyngra efni sekkur. Slíkir iðustraumar eru einnig taldir vera til staðar í möttlinum nú. Þeir verða til þess að ókyrrð kemst á jarðskorpuna og hún brotnar upp í fleka. Þar sem flekana rekur í sundur heita flekaskil og fyllast þau jafnóðum af möttulefni. Efsti hluti þeirrar jarðskorpu, sem myndast, er úr þungu storkubergi og kallast úthafsskorpa. Hún er stöðugt að verða til á svokölluðum úthafshryggjum eins og Atlantshafshryggnum.


Á flekamótunum, þar sem flekarnir skarast, kýtast flekarnir saman af miklu afli. Efstu jarðlögin skrapast ofan af þeim flekanum sem sekkur og mynda eyjaboga. Skorpan sem sekkur í möttulinn hitnar og í henni verður svokölluð hlutbráðnun þegar þau efni, sem lægst bræðslumark hafa, bráðna og stíga upp og valda eldgosum eða storkna áður en yfirborði er náð. Á löngum tíma verða eyjabogarnir að stórum fjallgörðum fellingafjalla úr bergi sem er mun léttara í sér en berg jarðskorpunnar, berghvolfsins, sem undir liggur. Þessi háreistu fjöll fljóta því á berghvolfinu líkt og ís á vatni. Með tímanum sverfa svo veðrun og rof fjöllin niður þannig að ræturnar koma í ljós en svarfið berst niður á láglendi við strendur. Skorpa sem þannig myndast kallast meginlandsskorpa.


Elsta berg sem finnst á jörðinni er talið um 3.800 milljón ára og er einmitt að finna í gömlum kjörnum meginlandsskorpu og hefur það myndast við samkýtingu fornra, og löngu horfinna fjallgarða.