Spendýr á ólígósen

Á ólígósen hélt þróun spendýra áfram. Margir ættbálkar frá eósen dóu út en öðrum ættbálkum fjölgaði allt frá nagdýrum til fíla. Ætt hesta hvarf frá Evrasíu á eósen en fáeinar tegundir hennar héldu velli í Norður-Ameríku og þar á meðal var miðhestur (Mesohippus) en dýr af þeirri tegund voru með þrjár tær. Mun meira var um stór spendýr á ólígósen en á eósen eins og dýr af ætt nashyrninga og önnur dýr þeim skyld. Þeirra á meðal var tröllnasi beljaki [Paraceratherium (Indricotherium, áður Baluchiterium)] sem er stærsta spendýr sem lifað hefur á landi svo vitað sé.


Þegar kom fram á ólígósen var fjöldi klaufdýrategunda í fyrsta sinn orðinn meiri en hófdýra og má þar nefna dýr eins svín og dádýr. Ættum rándýra eins og hunda, katta og hreysikatta sem áttu uppruna sinn að rekja til eósen-tímans fjölgaði líka á ólígósen og nútímalegri afbrigði þeirra komu fram.


Mikilvægt atriði í sögu spendýra á ólígósen-tímanum er þróun fremdardýra [primates]. Steingerðar leifar af Aegyptopithecus sem var skógardýr og telst til fremdardýra fundust í Egyptalandi eins og nafnið bendir til. Dýrið var skógardýr á stærð við kött með tennur samsvarandi apa en höfuðlag samsvarandi hálfapa. Heilabúið var óvenju stórt miðað við dýr þessa tíma. Á nýja tímabilinu, áður en maðurinn kom til sögunnar, skipuðu aparnir mikilvægan sess í lífríki þurrlendis.