Nýja tímabilið er einkum áhugavert vegna þess að nútíminn, sá tími sem við lifum, er seinasti tími þess. Með rannsóknum á nýja tímabilinu sést hvernig heimurinn tók á sig núverandi mynd, bæði hvað lífríki og landslag varðar.


Engin skörp skil eru mörkuð milli gamla og nýja tímabilsins (paleógen og neógen) með aldauða eða öðru slíku. Þó sá tími sé stuttur (24 Má) sem nýja tímabilið spannar urðu miklar breytingar á lífríkinu. Það sem hæst ber er mikil útbreiðsla grastegunda ör þróun hryggdýra til nútíma horfs. Auk þess má nefna mikla fjölgun snáka, spörfugla, froska, rotta og músa. Maðurinn þróaðist einnig af sameiginlegum forföður manna og apa á þessu tímabili. Himalajafjöll, Alpafjöll og Klettafjöll, héldu áfram að rísa. Miðjarðarhafið þornaði upp en myndaðist fljótlega aftur. Mestu máli skipta þó þær loftslagsbreytingar sem urðu á nýja tímabilinu. Jöklar lögðust yfir stóra hluta Norður-Ameríku og Evrasíu. Ísöldin er oft kennd við pleistósen en byrjaði raunar seint á plíósen og henni er e.t.v. ekki lokið enn. Ísöldin var ekki einn samfelldur fimbulvetur heldur skiptist hún í hlýskeið og kuldaskeið og sá tími sem við lifum á, nútími, getur því verið seinasta hlýskeiðið milli kuldaskeiða.


Það var Charles Lyell sem skilgreindi alla tíma nýja tímabilsins og gaf þeim nafn: míósen, plíósen, pleistósen og hólósen (nútími). Lyell greindi á milli jarðlaga frá nýja tímabilinu með rannsóknum á sjávarseti og steingervingum þess í Frakklandi og Ítalíu. Það var svo ekki fyrr en seint á nítjándu öld sem menn fundi jökulmenjar á landi og sáu að þær mátti heimfæra við jafngömul sjávarsetlög.