Landhryggdýr

Okkur hættir um of til að einblína á þróun stórra spendýra og sést þá oft yfir velgengni smærri dýra. Ef til vill er líka tilhneiging til að álíta lítil dýr frumstæð vegna smæðarinnar og að þau hafi litlum breytingum tekið á síðustu tímum jarðsögunnar. Rík ástæða væri hins vegar til að kalla nýja tímabilið — tímabil froska, rotta og músa, snáka eða spörfugla — því þróun þessara tegundahópa hefur verið feikileg síðustu ármilljónirnar. Margar tegundir rotta og músa grafa holur á þurrum svæðum og éta fræ grasa og blómjurta. Í vissum skilningi má þakka velgengni smávaxinna nagdýra á nýja tímabilinu uppgangi grasa og blómjurta eða öllu heldur kólnun loftslags sem varð jurtunum til framdráttar. Velgengni froska og karta sem nú finnast af um 2000 tegundir má líklega rekja til hæfileika þeirra til að veiða skordýr sér til viðurværis og víst er að mikill uppgangur snáka byggist á örri útbreiðslu froska og nagdýra; fá önnur rándýr geta elt nagdýr niður í þröng göng án þess að grafa. Fyrir upphaf nýja tímabilsins lifðu fáar tegundir snáka að frátöldum frumstæðum kyrkislöngum en nú teljast um 1400 tegundir til þróaðri ættar, Colulbridae, og eru sumar tegundir hennar eitraðar.


Tegundir spörfugla voru fáar fyrir nýja tímabilið en eru aftur á móti mjög áberandi nú. Þeir eiga velgengni sína vafalaust fjölgun blómjurta að þakka og líkt og hjá froskum hefur hæfileiki þeirra til að veiða skordýr einnig reynst þeim vel. Vel má vera að fleyg skordýr hafi átt sér fáa óvini áður en spörfuglarnir hófu sig til flugs.


Tegundir stórra dýra þróuðust líka til nútímalegs horfs á nýja tímabilinu. Á meðal grasæta fækkaði tegundum hesta og nashyrninga eftir mið-míósen og á það einnig almennt við um stærri hófdýr. Á sama tíma fjölgaði tegundum klaufdýra og má þar t.d. nefna hjartardýr, nautgripi, antilópur, sauðfé og geitur. Tegundum gíraffa og svína fjölgaði einnig á míósen-tímanum en síðan hefur þeim fækkað á ný. Tegundum fíla fjölgaði á míósen og plíósen og þar á meðal þeim sem hafa stóran rana en þeim hefur síðan fækkað og nú finnast aðeins tvær tegundir, Afríkufíllinn og indverski fíllinn sem má temja.


Rándýr þróuðust einnig til nútímahorfs á nýja tímabilinu en til þessa hóps má telja ætt hunda og katta sem báðar komu fram á forna tímabilinu. Birnir og hýenur voru líka mikilvæg viðbót við rándýrahópinn á míósen.


Mörg spendýr nýja tímabilsins breiddust hratt út eftir því sem gresjur og savannar stækkuðu. Mörg þeirra dýra sem fjölgaði á þessum tíma voru vel fallin til langra ferðalaga yfir miklar víðáttur og sum höfðu sívaxandi tennur er unnið gátu á harðgerðum grösum. Í mörgum tegundum grasa eru kísilagnir sem slíta upp tönnum grasbíta nema þær hafi viðvarandi vöxt. Sömuleiðis fjölgaði tegundum nagdýra sem aðlöguðu sig lífi á gresjum og þurrlendi. Fjöldi grasbíta á gresjunum og savönnum leiddi einnig af sér þróun rándýra sem elta bráðina uppi á opnum svæðum og má þar nefna ljón, blettatígur og háfætta hunda.


Afdrifaríkasta breytingin í lífkeðju landdýra varð vegna þróunar sem átti sér stað hjá fremdardýrum, einkum vegna þess að maðurinn tilheyrir þessum ættbálki. Ættbálkur fremdardýra (prímata) skiptast í þrjá undirættbálka hálfapa (Prosimii), sem fram komu á paleósen, draugaapar (Tarsoidea) og Anthropoidea en til hans teljast apar, mannapar og maðurinn.  Flest fremdardýr halda sig fremur í skógi en á savönnum; raunar lifa flest í skógi. Eins og fram hefur komið voru apar komnir fram á ólígósen; elsti hópurinn sem lifir í Afríku og Evrasíu nú kallast apar gamla heimsins. Fyrir lok ólígósen nam sérstakur tegundahópur land í Suður-Ameríku. Þeir eru kallaðir apar nýja heimsins og eru einkum frábrugðnir öpum gamla heimsins í því að þeir hafa griprófu. Tegundahópar apa beggja vegna Atlantshafsins þróuðust síðan óháðir hvor öðrum í takt við aðstæður.


Mannapar sem þróuðust í gamla heiminum breiddust mjög út en tegundum þeirra hefur fækkað upp á síðkastið. Þróun mannapa hefur vakið mikla forvitni vísindamanna og verið rannsökuð mjög vel við leitina að þróun og uppruna mannsins. Afdrifaríkustu þættirnir í þeirri þróun hafa gerst á pleistósen (ísöld).