Sunddýr

Ofar í fæðukeðjunni skipuðu ammonítar og belemnítar mikilvæg hlutverk sem rándýr. Eftir kreppuna í lok perm náði þróun ammónítanna sér aftur á strik og hélst svo út miðlífsöldina. Sérhver tegund ammóníta lifði þó aðeins í stuttan tíma - oft aðeins eina milljón ára eða styttra - og eru þeir því einkar ákjósanlegir einkennissteingervingar. ◊. Belemnítarnir sem voru líkir smokkfiski og skyldir ammonítunum eltu bráðina uppi á sama hátt með því að ýta sér úr stað með sterkri vatnsbunu. Þeir þróuðust seint á fornlífsöldinni en voru lítt áberandi þar til á miðlífsöld þegar margar gerðir komu fram. Tanndýr, sem talin eru vera tennur úr tálknmunna hafa einnig reynst notadrjúgir við að ákveða afstæðan aldur bergs frá trías en þeir eru horfnir á júra.


Af beinfiskum fornlífsaldar með geislaugga þróuðust margar tegundir sem reiddi vel af á fyrri hluta miðlífsaldar en voru þó mun frumstæðari en afkomendur þeirra sem nú lifa. Hreistrið sem þakti líkamann var t.d. tígullaga og sköruðust plöturnar varla eða jafnvel alls ekki andstætt kringlóttum hreisturplötum sem skarast á nær öllum lifandi beinfiskum. Að öllum líkindum vörðu þessar tígullaga hreisturplötur líkamann verr en gerist hjá núlifandi tegundum. Annað sem var frábrugðið hjá fiskum miðlífsaldar og núlifandi fiskum var að beinagrindin var að hluta úr brjóski, kjálkar voru frumstæðari og sporðurinn var ósamhverfur líkt og hjá beinfiskum fornlífsaldar. Sumir fiskar miðlífsaldar höfðu hnúðlaga tennur sem þeir hafa líklega notað til að bryðja skeljar með. Beinfiskar tóku mörgum breytingum á miðlífsöld og fáar fisktegundir með þeim frumstæðu einkennum sem hér hafa verið talin upp fundust í lok miðlífsaldar. Eitt af mikilvægum líffærum fiska þróaðist á þessum tíma en það er sundmaginn. Sundmaginn er talinn hafa þróast úr lungum fornlífsaldarfiska en þau þróuðust svo áfram hjá landdýrum.


Hákarlar voru algengir í höfum miðlífsaldar. Einn hópurinn, hybodonts, var talsvert áberandi og hafði þróast þegar í lok fornlífsaldar. Sumir þeirra voru með hnúðlaga tennur eins og beinfiskar þessa tíma og voru þær sérhæfðar til að bryðja með skeljar lindýra. Port Jakson hákarlinn við Ástralíu er afkomandi þeirra með álíka tennur enda lifir hann á lindýrum. Á meðan dró úr fjölbreytni hybodonts komu nútíma hákarlar fram á sjónarsviðið. Makrílhákarlarnir juku t.d. fjölbreytni sína á júra eins og ættin sem tígrishákarlinn telst til.


Mörg skriðdýranna sem komu fram í höfunum á miðlífsöld voru skepnur sem svipaði til þeirra viðtekinna hugmynda fólks um sjóskrímsli. Á meðal þeirra voru placodontas sem voru með hnúðlaga tennur sem þau bruddu skeljar og kuðunga með líkt og margir fiskar þessa tíma. Þessi dýr höfðu kubbslegan brynjaðan líkama og líktust helst skjaldbökum. Náskyld þeim voru nothosaurs, sem fundist hafa í setlögum frá ártrías og virðast þau hafa verið fyrstu sjávarskriðdýrin. Þau höfðu hreyfa fyrir útlimi líkt og selir nú og margt bendir til þess að þeir hafi ekki verið alger lagardýr fremur en selirnir. Þeir hafa þess í stað haldið sig við og á ströndinni en stungið sér til sunds af og til eftir æti. Þó svo að placodonts og nothosaurs hafi ekki lifað tríastímabilið af þróuðust alger lagardýr af þeim á miðtrías. Það voru Plesiosaurs ◊. eða svaneðlur sem voru rándýr, allt að 12 m langar, og lifðu á fiski líkt og tannhvalir nú. Dýrin höfðu stór vænglaga sundbægsli.


Ichthyosaurus eða fiskeðlur, eins og augneðlan [Ophthalmosaurus], (165 – 145 Má) voru þau skriðdýr sem hvað mest líktist fiskum og lifðu sem rándýr ofarlega í fæðupýramída hafanna. Í útliti líktust fiskeðlur þó fremur höfrungum en fiskum eins og sést á steingerðum leifum þeirra í svörtum leirsteini sem myndast hefur í súrefnissnauðu umhverfi og varðveitt hefur útlínurnar á líkama dýrsins. Sporður fiskeðlunnar var aftur á móti lóðréttur eins og hjá fiskum en ekki láréttur eins og hjá höfrungum og öðrum hvölum. Hryggsúlan lá aftur í sporðinn og sveigði þar niður andstætt því sem gerðist hjá fyrstu beinfiskum miðlífsaldar en hjá þeim sveigði hún uppá við. Þar eð fiskeðlurnar voru alger lagardýr fæddu þær lifandi unga í stað þess að verpa eggjum. Sést þetta á steingerðum ungum sem liggja inni í steingerðum beinagrindum kvendýra.


Krókódílarnir voru seinustu lagardýrin sem komu fram snemma á miðlífsöld. Þó svo að krókódílar þróuðust á trías sem landdýr höfðu sumir aðlagað sig sjávarlífi á árjúra. Í raun voru vissar tegundir krókódíla óárennileg sjávarrándýr sem höfðu hala vel fallinn til sunds.


Tilvist risaeðlanna á miðlífsöldinni gaf lífríki stóru meginlandanna nýjan svip en plönturnar voru einnig einkennandi á þessum tíma. Vegna þess að þessar plöntur mynduðu grunn fæðupýramídans sem risaeðlurnar tilheyrðu er rétt að líta á þær fyrst.