Hæð sjávarborðs, loftslag og hafstraumar

Fyrri hluta krítartímabilsins hækkaði sjávarborð hægt og sígandi ef frá eru talin nokkur stutt bakslög í þeirri þróun og líklegt er að aldrei frá upphafi kambríum hafi jafn víðáttumikil myndun sjávarsets átt sér stað á jörðinni.


Á krítartímabilinu urðu mismunandi breytingar á hitafari á hinum ýmsu stöðum en bæði súerfnissamsætur og plöntusteingervingar benda til að loftslag hafi stöðugt hlýnað fyrri hluta krítartímabilsins og í lok þess hluta eða fyrir um 100 milljónum ára varð meðalhitastigið hærra en það hefur orðið síðan. Hitastig lækkaði svo hægt aftur út seinni hluta krítartímabilsins.


Um miðhluta tímabilsins myndaðist víða svartur leir á grunnsjávarbotni. Tengsl eru milli lofthita á jörðinni, blöndunar sjávar og myndunar svarta leirsins í setlagaannálum. Vitað er að leirinn myndaðist þar sem þurrð varð á súrefni í sjónum. Svo lítur út sem mikil leirlög hafi hlaðist upp í grunnum höfum þegar lítil blöndun sjávar varð og kyrrstaða ríkti. Jafnheitur yfirborðssjór sekkur ekki og því verður ekki blöndun en kaldur sjór við pólana sekkur og flytur súrefni með botninum í átt til miðbaugs. Ljós litur sets á milli svartra leirlaganna í borkjörnum úr útsjávarseti sýnir fram á að nægt súrefni hafi verið til staðar. Tíð skipti sýna breytt rennsli kalds og súrefnisríks sjávar til miðbaugs. Mikil setlög úr svartri leðju mynduðust þegar svo hlýtt var á pólunum að yfirborðssjórinn þar náði ekki að sökkva og renna með botninum í áttina til miðbaugs. Mikil útbreiðsla svarta setsins frá miðhluta krítar bendir til þess að þá hafi verið hlýtt, svo hlýtt að jafnvel djúpsjórinn var hlýr. ◊.