Samantekt

Við mat á þeim útdauða sem leiddi til loka miðlífsaldar vakna ýmsar spurningar. Rakst stór glóandi loftsteinn á jörðina alveg í lok miðlífsaldar? Og ef svo er hvaða hluta útdauðans á maastricht-tímanum olli slíkur árekstur? Hvað risaeðlurnar varðar er ekki hægt að meta þátt áreksturs því að við vitum ekki hversu stór hluti tegunda þeirra dó út í lok maastricht-tímans. Ekki er hægt að kenna einstökum atburði í lokin stöðugri fækkun risaeðla á Maastricht-tímanum. Aftur á móti bendir iridínfrávik og dreifar af afmynduðu kvarsi í lok krítar-tímabilsins eindregið til þess að stór loftsteinn hafi lent á jörðinni.


Snöggur útdauði sviflægra götunga í höfunum og snögg breyting flórunnar á landi bendir til að slíkur atburður hafi valdið einhverjum útdauða tegunda. Á hinn bóginn sýnir hnignun risaeðlanna og margra sjávardýra á maastricht-tímanum að hrikalegar hamfarir veittu hnignandi lífríki náðarhöggið og einnig hefur komið fram að langtíma breytingar á loftslagi höfðu leitt til líffræðilegrar kreppu.


Líklega er þó um sambland margra þátta að ræða svo sem loftsteinaregn, eldvirkni, landrek og loftslagsbreytingar.


Að auki hafa komið fram margar skemmtilegar og hugmyndaríkar kenningar um hvarf risaeðlanna svo sem að spendýr hafi étið eggin þeirra, eitrun, geimættuð fyrirbæri, eggjaskurn þynnst og sjúkdómar geisað.


Helstur breytingar á flóru, fánu og meginlöndum á Krít:

  1. Með mikilli útbreiðslu skoruþörunga (dinoflagelladta) kísilþörunga (diatoms) og kalkríks plöntusvifs fékk plöntusvifið nútímalegt yfirbragð. Sömuleiðis varð aukin fjölbreytni götungasvifs til þess að dýrasvif þróaðist til nútímahorfs.
  2. Kalkríkt set, sem rigndi í miklum mæli niður á hafsbotninn, myndaði þykk setlög af kalki í Vestur-Evrópu og víðar.
  3. Lífríkið á hafsbotni breyttist með aukinni fjölbreytni rándýra eins og krabba, beinfiska og snigla sem lifðu á bráð sinni.
  4. Á mið-krít urðu rudist-samlokur atkvæðameiri en kórallar við myndun kalkrifja.
  5. Á landi komu dulfrævingar í stað berfrævinga sem fjölbreyttustu tegundir plantna.
  6. Gondvanaland brotnaði upp á krít og við það myndaðist Suður-Atlantshaf og hin heimshöfin.
  7. Sjávarborð hækkaði á árkrít þannig að sjór flæddi yfir Evrópu og vestanverða Norður-Ameríku frá Mexíkóflóa til Norður-Íshafs.
  8. Myndun fjallgarða í Norður-Ameríku færðist austar.
  9. Loftslag fór kólnandi á síðkrít en áður en það gerðist var það svo hlýtt að rif rudist-samloka náðu mikilli útbreiðslu í Suður-Evrópu og í Norður-Ameríku náðu þau frá Mexíkóflóa meðfram strönd Atlantshafsins til New Jersey.
  10. Í lok krítartímabilsins urðu ammonítar, rudist-samlokur, fiskeðlur og risaeðlur aldauða og svo fór einnig fyrir mörgum öðrum tegundahópum.