Uppgangur risaeðlanna

Því miður er „steingervingaannáll“ árjúra of fátæklegur til þess að hægt sé að rekja samfellda sögu af uppgangi risaeðlanna og það sem gerði þær að einkennisdýrum. Engu að síður er jafnvel hægt að finna slitrur steingervinga af gríðarstórum risaeðlum í bergi frá árjúra og sýnir það að þær hafa þróast hratt. Fyrstu stóru risaeðlurnar finnast í setbergi í Ástralíu.


|Tskriðdýr|


Risaeðlurnar eru flokkaðar í tvo hópa eftir byggingarlagi mjaðmagrindar og komu þeir báðir fram á síðtrías. Þær sem höfðu mjaðmagrind líka og hjá fuglum kallast fleglar [Ornithischia] og voru þær allar jurtaætur en í hinum hópnum eru dýr þar sem mjaðmagrindin var lík og hjá eðlum, svokallaðir eðlungar [Saurischia] en meðal þeirra voru bæði jurtaætur [sauropoda] og kjötætur [theropoda]. |Tskriðdýr| ◊. Á meðal eðlunga og flegla sem voru fjölskrúðugir hópar seint á júra voru tegundir dýra sem hlupu um á afturfótunum og önnur sem gengu á öllum fjórum fótunum.


Steingervinga af risaeðlum er víða að finna í jarðlögum og er svikallölluð Morrison myndun frá síðjúra í Montana í Nýju-Mexíkó td. auðug af þeim. Þar á meðal eru steingerðar leifar eðlungsins og grasætunnar skjálftaeðlu (Seismosaurus) sem lifði fyrir 154 Má og var lengi talin stærst allra risaeðla. Hún var 32 - 53 m löng og vó allt að 90 tonn. Enn þyngri eðlungur Argentinosaurus huinculensis, uþb. 100 tonn, fannst í Argentínu í jarðlögum frá síðkrít.


Herrerasaurus hefur verið álitin formóðir risaeðlanna en var að mörgu leyti frábrugðin þeim. Hún varð um 3 m löng og lifði fyrir 228 Má. Nýlega fannst steingerð erkieðla í Tanzaníu sem líkist mjög risaeðlum og lifði á ártrías fyrir 245 Má. Henni var gefið nafnið Asilisaurus kongwe [Asilisaurus kongwe, Swahili: asili: fromóðir; Gr.: sauros: eðala; Swahili: kongwe: forn]. ◊.


Á síðtrías byrjuðu hryggdýrin að leggja loftið undir sig þegar flugeðlurnar [Pterosaur] komu fram. Þessi dýr sem teljast til Diapsida höfðu langa vængi og hol bein sem komu sér vel á flugi. Sumar tegundirnar höfðu jafnvel langan hala. Bygging beinagrindar flugeðla sýnir að þessi dýr gátu flogið með því að blaka vængjunum en mikið vænghafið bendir til þess að þau hafi einkum blakað vængjunum við flugtak en notað uppstreymi til að svífa á. Lítið er vitað um háttalag dýrsins þegar það var ekki á flugi. Flestar tegundir virðast hafa getað gengið og sömuleiðis klifrað með klóm á vængjunum.


Nú er vitað að fuglar þróuðust af eðlungum og nánar tiltekið kjötætunum [Theropoda].


Sjá aukasíðu um risaeðlur.


Elsti steingervingur af fugli er frá síðjúra. Fyrstu merkin um tilvist fugla var steingerð fjöður sem fannst 1861 í fínum kalksteini í Solnhofen í Þýskalandi og stuttu seinna fannst öll beinagrindin sem fjöðrin tilheyrði. Þetta fiðraða dýr var kallað öglir [Archaeopteryx Gr.: ἀρχαῖ οξ, archaios: forn; πτέρυξ, pteryx: fjöður, vængur] — „forn vængur“. Öglir var með beinagrind sem líktist svo mjög risaeðlum að hún hefði verið flokkuð með þeim hefðu fjaðrirnar ekki fylgt. ◊.  Þetta er fundur sem er er dæmigerður fyrir týnda hlekkinn milli fugla og ófleygra forfeðra þeirra. Tennurnar, langt stél með hryggjarliðum, og klær á framlimum sem ekki finnast hjá fuglum nú eru merki um skyldleika öglis við risaeðlur. ◊. Óskabeinið og ósymmetrískar flugfjaðrir sem hann hafði einkennir hins vegar fugla. Ögli vantar bringubeinið og er því talinn hafa verið með veika flugvöðva. Ef til vill var hann klunnalegur á flugi miðað við nútímalega fugla. Því miður eru hol bein fugla brothætt og því eru bein öglis þau einu sem hafa fundist í berglögum frá júra.


Óljósar heimildir eru fyrir því að steingerð fuglabein hafi fundist í berglögum frá síðtrías. Sé það rétt eiga fuglar uppruna sinn að rekja lengra aftur en álitið hefur verið til þessa. Öglir er þá dæmi um tegund fugla sem lifað hefur um langan tíma.


Með nýjum rannsóknum eru hugmyndir manna um risaeðlurnar sífellt að breytast. Þær voru til dæmis hvergi nærri allar eins risavaxnar og nafnið bendir til. Margar voru innan við einn metra á lengd. Ýmsir hafa lýst risaeðlunum sem hægfara silalegum dýrum en margt bendir hins vegar til þess að margar þeirra hafi verið fráar á fæti líkt og strúturinn nú. Steingerð spor risaeðlanna benda til þess að hjá flestum þeirra hafi útlimirnir staðið beint niður úr búknum og sporin benda ennfremur til þess að þær hafi borið hratt yfir.


Margt bendir til þess að risaeðlurnar hafi verið félagsverur sem lifðu í hópum. Andanefjurnar sem uppi voru á síðkrít voru með loftgöng í höfuðkúpunni til hljóðmögnunar líkt og í lúðri. Hvort sem þær notuðu hljóð til tjáskipta eða ekki er ljóst að þær fóru um í stórum hjörðum.


Lengi hefur verið vitað að risaeðlurnar urpu eggjum. Steingerð hreiður sýna að eggin hafa legið í hring líkt og þeim hafi verið raðar samviskusamlega og jafnvel staflað í nokkur lög. Líkt og fuglar og krókódílar hugsuðu risaeðlurnar um unga sína sem uxu mjög hratt. Þegar þeir skriðu úr egginu voru þeir varla meira en nokkrir cm en voru orðnir ca. 1,5 m á lengd áður en þeir yfirgáfu hreiðrið, etv. 3 til 4 mánuðum eftir útungun.


Tvær spurningar eru einkum áleitnar varðandi stærstu risaeðlurnar. Sú fyrri varðar fæðuöflun þeirra. Hvernig gátu svo tiltölulega litlir kjálkar tuggið næga fæðu fyrir svo stórt dýr. Svarið liggur í því að stóru grasbítarnir notuðu kjaftinn og kjálkana aðeins til að háma fæðuna í sig. Fundist hafa fóarnsteinar svipaðir og hjá fuglum en bara miklu stærri sem dýrin notuðu til að mylja og merja fæðuna með eftir að þau höfðu gleypt hana.


Hin spurningin er sú hvort stóru risaeðlurnar gætu hafa staðið undir eigin líkamsþunga á þurru landi. Áður var það viðtekin skoðun að þær hefðu haldið sig við bakka fljóta og strendur stöðuvatna líkt og flóðhestar og látið vatnið bera feykilegan líkamsþungann uppi. Stóru risaeðlurnar höfðu ekki breiða fætur sem hentuðu til gangs í botnleðju fljóta og stöðuvatna og þar að auki er steingerðar leifar þessara dýra einkum að finna í þurrlendisseti eins og leifar litlu risaeðlanna. Því virðist sem stærstu risaeðlurnar hafi gengið á fjórum fótum á þurru landi.


Skiptastar hafa skoðanir manna verið um efnaskipti risaeðlanna. Þær hafa lengst af verið flokkaðar sem skriðdýr og viðtekin venja hefur verið að álíta þær vera með misheitt blóð [ectothermic; Gr.: ecto-: ytri, að utan; -thermic: að hita]. Nýlega hefur því hins vegar verið haldið fram að risaeðlurnar hafi raunar verið með jafnheitt blóð [endothermic; Gr.: endo-: inni í, að innanverðu; -thermic: að hita]. Þessar nýju hugmyndir má rekja til þess að risaeðlurnar voru athafnasöm dýr sem einmitt þess vegna vegnaði betur á miðlífsöldinni en fyrstu spendýrunum sem einskis máttu sín. Rökin fyrir þessu eru þau að risaeðlurnar hefðu ekki staðist samkeppnina við spendýrin hefðu þau hefðu ekki verið fær um hreyfa sig mikið og hratt við að elta uppi bráð eða flýja undan rándýrum. Dýr með misheitu blóði og þar á meðal nútíma skriðdýr hafa lítið þol. Auk þess má benda á að í samfélagi risaeðla voru rándýr innan við 10% lifandi tegunda eins og raunin er með hlutfall rándýra og bráðar hjá útdauðum og lifandi samfélögum spendýra. Í samfélögum dýra með misheitu blóði eru rándýrin um 40% lifandi tegunda. Dýr með hæg efnaskipti þurfa litla fæðu og mörg geta haft viðurværi sitt af fáum fórnarlömbum. Þetta lága hlutfall rándýra í samfélögum risaeðla bendir til meiri skyldleika þeirra við samfélög spendýra en samfélög skriðdýra. Talsverð umræða hefur einnig verið um smásæja byggingu í beinum risaeðlanna. Bein hjá dýrum með jafnheitt blóð eru frábrugðin beinum dýra með misheitt blóð og færðar hafa verið að því líkur að bein risaeðla hafi verið af þeirri gerð sem gerist hjá dýrum með jafnheitt blóð.


Hvað svo sem um efnaskipti risaeðla er að segja er vitað að jafnvel stóru risaeðlurnar voru athafnasöm dýr með mikla aðlögunarhæfni fremur en að þær hafi verið einfaldar klunnalegar ófreskjur.


Sjá blóðhiti.