Stórar risaeðlur og smá spendýr

Steingervingaannáll landhryggdýra á árkrít er gloppóttur en sýnir þó að það voru risaeðlurnar sem ríktu. Steingervingafána í Englandi og Þýskalandi hefur að geyma nokkrar jurtaætur en fjöldi nýrra risaeðlutegunda er kominn fram á sjónarsviðið og er svo að sjá sem þær séu undanfari risaeðlutegunda frá síðkrít.


Í vestanverðum Bandaríkjunum mynduðu risaeðlurnar svipuð samfélög og nú þekkjast á sléttum Afríku. Í stað antilópa, zebrahesta og villinauta voru margar tegundir andanefjueðla. Þessar fótfráu jurtaætur fóru líklega um í hjörðum og hafa getað gefið frá sér há blásturshljóð með því að þrýsta lofti um flókin og sérkennileg nasagöng. Í stað nashyrninga voru hyrndar risaeðlur með fuglsnef og tennur til að skera grófan gróður. Þarna voru einnig ógnvekjandi rándýr eins og stærsta landrándýr allra tíma, grameðla (Tyrannosaurus) og Albertseðla (Albertosaurus). Krókódílar sem gátu orðið allt að 15 m á lengd voru þarna líka. Mun færri tegundir og einstaklingar voru af stórum ráneðlum en af grasbítum meðal risaeðlanna og bendir það til þess að þessi rándýr hafi gegnt álíka hlutverki í lífríkinu og ljón og hýenur nú sem einnig eru mun færri en klaufdýrin sem þau velja sér fyrir bráð.


Samkvæmt steingervingum í vestanverðum Bandaríkjunum virðist þróunin á síðkrít almennt hafa leitt af sér sífellt stærri tegundir risaeðla. Þá ekki einungis meðal rándýra heldur einnig meðal grasbíta eins og andanefja og hyrndra risaeðla og urðu stærstu þekktu tegundirnar þær síðustu til að þróast áður en þessi dýr hurfu af sjónarsviðinu. Á meðal þessara risa voru samt sem áður margar smærri tegundir svo að bæði fjöldi og fjölbreytni var mjög mikil.


Um loftið flugu dýr af tveim tegundum hryggdýra sem höfðu þróast á miðlífsöld en það voru fuglar og fljúgandi skriðdýr — flugeðlur [Pterosauria]. Flestir fuglar krítartímabilsins voru e.t.v. vaðfuglar með líka lifnaðarhætti og hegrar og trönur nú. Flugeðlurnar voru e.t.v. tilkomumestar allra dýra krítartímabilsins þar sem þær svifu um loftin. Stærstu tegundirnar sem finnast steingerðar í setlögum frá síðkrít í Texas eru taldar hafa verið með 11 m vænghaf. Dýr þessarar tegundar hafa svifið um líkt og hrægammarnir nú í leit að hræjum. Margar tegundir smærri hryggdýra sem minna fór fyrir og áttu framtíð fyrir sér voru froskar og salamöndrur, skriðdýr (snákar, eðlur, og skjaldbökur) og spendýr. Af froskum og salamöndrum sem fram komu á júra höfðu sumar ættir sem nú eru þekktar þróast í lok krítartímabilsins. Eðlur og skjaldbökur voru jafnvel komnar fram fyrr á miðlífsöldinni og margar núlifandi ættir þeirra voru líklega til á krít.


Snákar eru ungur tegundahópur. Þessi útlimalausu skriðdýr komu fyrst fram á krítartímabilinu og sú þensla sem varð í þróun þeirra gerðist ekki fyrr en á nýlífsöldinni. Allir snákar krítartímabilsins töldust til sama frumstæða tegundahópsins og kyrkislöngur.


Annar tegundahópur krítartímabilsins sem átti bjarta framtíð fyrir sér voru spendýrin.  Spendýr krítartímabilsins líkt og spendýr trías og júra voru smá en á þessum tíma höfðu margar tegundir þróast. Ýmsir frumstæðir tegundahópar spendýra dóu út og tveir stórir nútíma tegundahópar komu fram. Pokadýrin sem nú er einkum að finna í Ástralíu teljast til annars þeirra og legkökuspendýrin sem flest núlifandi spendýr teljast til eru í hinum.