Risaeðlur — endalok

Endalok risaeðlanna líkt og plantna miðlífsaldar eru skráð í setlögum í vestanverðri Norður-Ameríku. Jafnvel þarna er tímasetning útdauðans óráðin gáta því að steingervingar risaeðla eru ekki eins algengir og af smærri og algengari líffærum plantna. Ein ráðgátan er hvort fækkun risaeðlanna var byrjuð löngu fyrir lok krítartímabilsins og önnur er hvort fáeinum tegundum risaeðla hafi tekist að lifa fram á fyrri hluta tertíer (paleogene).


Í Montana og Suður-Alberta lifði fána skömmu fyrir Maastricht-tímann með 30 ættkvíslum, fjölbreyttasta fána risaeðla sem þekkt er. Í setlögum frá Maastrich-tímanum fækkar einstaklingum og í efri hluta þeirra hefur lítið fundist af steingervingum þrátt fyrir mikla leit og bendir það til þess að um fáa einstaklinga hafi verið að ræða. Í því sambandi má nefna að í 16 efstu metrum Maastricht-setlaganna er aðeins að finna 13 ættkvíslir.


Önnur vegsummerki sem benda til þess að síð-Maastricht fánunni hafi hrakað er sú staðreynd að steingervingar þríhyrningseðla eru um 70-80% steingervinga risaeðla frá síð-Maastricht. Ummerki annarra ættkvísla sem áður höfðu verið áberandi þ.á.m. andanefjanna sjást varla á þessum tíma. Því má álykta að náttúran hafi verið lífríkinu óblíð.