Plöntur og loftslagsbreytingar

Landplöntur gefa á vissan hátt góða vísbendingu um hvað gerðist í lok krítar-tímabilsins því að dulfrævingar sem nýlega höfðu þróast sýna loftslagsbreytingar vel. Í vestanverðri Norður-Ameríku er eina svæðið í heiminum þar sem hægt er að sjá samfelldar setlagasyrpur frá KT-mörkunum. Iridínfrávik finnst í þessum setlagasyrpum ásamt mikilvægum breytingum á smásæjum plöntusteingervingum. Frávikið finnst í þunnu leirlagi sem kennt er við KT-mörkin. Í seti neðan lagsins í Nýju-Mexíkó eru gró aðeins 14 - 30% af smásæjum steingervingum gróa og frjókorna en í KT-laginu er hluti gróa 99%. Þessi mikla aukning hefur verið kölluð byrkningatoppurinn. Nokkrum cm ofan KT-lagsins fjölgar frjókornum á ný. Túlkun á þessu er sú að dulfrævingum fækkar skyndilega og burknarnir einokuðu landsvæðin uns fjölskrúðugri flóra náði yfirhendinni á ný. Sömu þróun má sjá í setlögum í Kanada. Útbreiðsla burkna í Norður-Ameríku minnir á það sem gerst getur þegar gróðureyðing verður nú t.d. í skógareldum. Þá getur það gerst að burknar nemi svæðið áður en æðri plöntur sem betur standast samkeppnina bægja þeim frá. Það virðist vera rökrétt að tengja eyðingu flórunnar sem burknarnir komu í staðinn fyrir við hamfarirnar sem orsökuðu iridínfrávikið.


Sumar plantnanna sem endurheimtu landið af burknunum höfðu lifað á krítartímanum en aðrar tegundir krítartímabilsins voru horfnar með öllu. Það sem einkum einkennir fjöldadauða æðri plantna er að hann er mestur syðst. Í Norður-Mexíkó þar sem heittempruð flóra lifði hurfu 75 tegundir, norðar í Wyoming og Montana dó um helmingur út en enn norðar í Alberta dóu aðeins 25% út. Þetta ferli bendir til þess að snögg kólnun hafi orsakað hörmungar flórunnar. Við slíkar aðstæður dóu plöntur út sem áttu sér heimkynni í heitu loftslagi og þoldu kulda illa því að þær áttu sér enga undankomuleið. Útdauðinn sýnir einnig að óvenju stór hluti sumargrænna plantna með tennt laufblöð sem þau fella í köldum árstíðum lifði af andstætt flestum sígrænum lauftrjám sem ekki geta lagst í dvala að vetri. Flóra KT-markanna í Wyoming sem var með tennt laufblöð og felldi þau að hausti lifði t.d. langt fram á paleósen, fyrsta tíma tertíer. Þetta bendir til þess að hitastig hafi haldist kalt miklu lengur en „vetur“ sem orsakast hefði af árekstri loftsteins. Hafi hitastigið í raun haldist lágt svo lengi er orsökin fyrir því ókunn.