Miðlífsöld — Trías- og júratímabilið

Miðlífsöldin hófst með tríastímabilinu og nær það ásamt næsta tímabili, júratímabilinu, yfir rúman helming aldarinnar. Berglög frá þessum tíma sjást vel í Evrópu þar sem þau hafa verið mikið rannsökuð.


Nálægt mótum fornlífs- og miðlífsaldar var risameginlandið Pangea fullmótað enda hafði nær öll meginlandsskorpa jarðar sameinast í því. Pangea var svo stór að mikill hluti hennar lá langt frá sjó og því ríkti þar víða afar þurrt loftslag. Á júratímabilinu hækkaði hins vegar yfirborð sjávar og sjór gekk á land enda er mun meira um sjávarset frá þessu tímabili en trías. Það var svo seinna á miðlífsöldinni að Pangea byrjaði að liðast í sundur og fyrir lok júratímabilsins var Gondvanaland enn á ný aðskilið meginlöndunum á norðurhveli.


Lífríki miðlífsaldar var í mörgu frábrugðið lífríki fornlífsaldar. Margir tegundahópar dýra áttu erfitt uppdráttar eftir útdauðann í lok perm en seinast á trías höfðu lindýr náð sér aftur á strik og aukið fjölbreytni sína meir en hún hafði nokkurn tíma verið á fornlífsöld og má segja að blómaskeið þeirra standi enn. Lífríki sjávar breyttist einnig á trías- og júratímabilinu þegar nýjar kóraltegundir bættust við fánuna og tóku þátt í upphleðslu rifja og stór skriðdýr skipuðu sér í lið með fiskum sem sjávarrándýr. Á landi ríkti berfrævingaflóran áfram eins og hún hafði þegar gert á perm og flugeðlur og fuglar komu einnig fram. Mikilfenglegasti viðburðurinn í lífríki þurrlendisins var þróun risaeðlanna (dínósáranna). Spendýr þróuðust einnig á þessum tíma en þau héldust smá og voru tiltölulega lítið áberandi út miðlífsöldina sem er oft kölluð öld risaeðlanna.


Trías afmarkast af útdauðanum í lok perm og útdauða á mörkum trías-júra.