Lífríkið

Líf á krítartímabilinu var furðuleg blanda fornra og nútímalegra lífvera. Í höfum síðkrítar t.d. lifðu nútímalegar tegundir samloka og snigla á meðal risastórra snúinna ostruskelja og annarra nú útdauðra samloka. Fjölbreytilegir fiskar af nútímalegum gerðum syntu á meðal dýra sem nú eru útdauð og eiga sér enga núlifandi ættingja eins og ammónítar, belemnítar og sæskrímsli af fylkingu skriðdýra. Á landi breyttist flóran og svipmót miðlífsaldar sem einkennst hafði af berfrævingum vék fyrir nútímalegra svipmóti sem einkennist af blómplöntum. Margir tegundahópar hryggdýra þróuðust á þessum tíma eins og snákar og nútímategundir af skjaldbökum, eðlum, krókódílum og salamöndrum. Risaeðlurnar héldu aftur á móti áfram að ríkja í vistkerfi þurrlendisins. Af þeim landhryggdýrum krítartímabilsins sem nú lifa voru það aðeins krókódílarnir sem nálguðust líkamsstærð risaeðlanna. Spendýrin, sér í lagi, voru afar smávaxin miðað við það sem nú gerist.