Landplöntur: Berfrævingaflóra miðlífsaldar

Ólíkt dýrum sem lifðu á landi virðast landplöntur ekki hafa orðið fyrir neinum teljandi skakkaföllum við útdauðann í lok fornlífsaldar. Enda tók flóru fornlífsaldar að hnigna löngu fyrir lok permtímabilsins og segja má að breytingin frá fornlífsaldarflóru til miðlífsaldarflóru hafi hafist löngu fyrir upphaf miðlífsaldar.


Á meðal þeirra tegundahópa þar sem fjölbreytni tegunda dróst saman löngu fyrir permtímabilið voru jafnatrén sem mynduðu fen kolaskóganna og elftingar og Cordaites-trén er uxu ofar í landinu. Þau sem hvað best lifðu af fornlífsöldina voru gróburknar og fræburknar. Fræburknarnir týndu hins vegar tölunni þegar kom fram á júratímabilið en gróburknarnir héldu sínum hlut. Þeir eru algengir í nútímaflóru en þó hvergi nærri eins og á trías þegar þeir voru einkennisplöntur.


Þó svo að sum trjánna sem gnæfðu yfir burkna tríastímabilsins væru elftingar og jafnar töldust flest trjánna til þeirra þriggja tegunda berfrævinga (gymnosperma) sem þegar höfðu náð fótfestu á permtímabilinu. Til fjölskrúðugasta tegundahópsins töldust köngulpálmar (cycad), útdauðir ættingjar köngulpálma (cycadeoid) og síðar barrtré og musteristré (Ginkgo). Tegundir allra þessara hópa hafa lifað fram á nútíma en köngulpálmar eru sjaldséðir og aðeins ein tegund musteristrés finnst nú.


Þessar einkennisplöntur teljast til berfrævinga því bert fræ einkennir þau. Fræ barrtrjánna sem einnig teljast til berfrævinga sitja hins vegar í könglinum. Berfrævingar treysta á vindfrævun en hjá blómplöntum sem teljast til dulfrævinga og komu ekki fram fyrr en á krít sjá skordýr yfirleitt um frævunina. Að furunni frátaldri er líklegt að öll barrtré hafi verið komin fram snemma á miðlífsöld.


Eins og áður segir eru köngulpálmar sjaldgæfari plöntur en barrtré. Þær fáu tegundir sem enn lifa eru hitabeltistré og líkjast þau pálmum að útliti. Bolir hinna útdauðu ættingja köngulpálma eru vel þekktir sem steingervingar frá upphafi miðlífsaldar. Eina tegundin sem enn lifir af musteristrénu, líkist fremur lauftré en barrtré og líkt og lauftrén fellir það laufin árstíðabundið. Þessi eina núlifandi tegund er sannkallaður „lifandi steingervingur“ og má rekja sögu þessarar plöntu til paleósen tímans, snemma á nýlífsöld, fyrir um 60 Má.


Köngulpálmar, Cycadeoid, barrtré og musteristré mynduðu skóga júratímabilsins en köngulpálmar voru svo áberandi að tímabilið má kalla öld köngulpálmanna. Burknar júratímabilsins voru ekki eins áberandi sem botngróður skóga og á trías. Þó hefur landslag bæði á trías og júra verið líkara því sem við nú þekkjum en landslag fornlífsaldar vegna barrtrjánna sem líktust núlifandi barrtrjám. Eigi að síður hefur flóra án blómplantna eins og grasa og lauftrjáa sýnst forn miðað við það sem nú gerist.