Landdýr — Öld risaeðlanna hefst

Á síðperm og ártrías var mestur hluti Pangeu ofansjávar. Við slíkar aðstæður mætti ætla að fjöldi steingervinga sem spannar þetta tímabil hafi varðveist og séu þeir því auðfundnir. Því miður er sú ekki raunin. Samfelldan „steingervingaannál“ er aðeins að finna á tveimur stöðum: í Karroo-Lægðinni í Suður-Afríku og við Úralfjöll í Rússlandi. Í meginatriðum má lesa sömu söguna af báðum þessum „steingervingaannálum“. Rétt neðan við perm-trías mörkin á báðum fyrrnefndum stöðum hverfa flestar þeirra tegunda skriðdýra sem líktust spendýrum úr steingervingafánunni og markar þetta þar með mikinn útdauða tegunda. Við upphaf trías voru eftir fáeinar tegundir rándýra og stóra grasætan Lystrosárus sem fræg er vegna steingervingafunda á hinum ýmsu brotum fyrrum Gondvanalands.


Þó svo að þeleðlur ykju aftur á fjölbreytni sína á trías náðu þau rétt aðeins að halda velli fram á júra. Eigi að síður skildu þau eftir sig mikilvægan arf, spendýrin, sem þróuðust af þeim á síðtrías. Spendýr sem hafa jafnheitt blóð, eru hærð, ala ungana á móðurmjólk og eru einkennisdýr í lífríki stórra landdýra héldust smá og atkvæðalítil út miðlífsöldina. Svo er að sjá að engar tegundir hafi orðið stærri en heimilisköttur. Vandi spendýranna virðist hafa verið samkeppnin við risaeðlurnar sem sömuleiðis juku á fjölbreytni sína á síðtrías og urðu fljótlega einkennisdýr.


Risaeðlurnar voru einnig smávaxnar í fyrstu en yfirburðir þeirra yfir frumstæðum spendýrum geta hafa legið í því hversu fimar og kvikar þær voru. Þær erfðu hreyfigetu sína frá forfeðrum sínum, boleðlum [Thecodontia], ◊. ◊. ◊. sem þróuðust á tríastímabilinu en þeir teljast til Diapsida. |Tskriðdýr| Sumar boleðlur gátu hlaupið mjög hratt á sterkbyggðum afturfótunum líkt og strútur og aðrir ófleygir fuglar en flestir þeirra gengu þó oftast eða stóðu á öllum fjórum fótum. Lærleggur margra boleðla stóð beint niður frá mjaðmagrindinni í stað þess að standa út í skriðstellingu líkt og gerðist hjá segleðlunum. Þessi eiginleiki sem kemur sér vel við hlaup erfðist til risaeðlanna og virðist hafa verið lykillinn að velgengni þeirra.


Fyrstu risaeðlurnar líktust tvífættum boleðlum en þær höfðu höfuðkúpu ólíkrar gerðar svo og tennur sem voru þróaðri. Risaeðlurnar urðu ekki „risar“ fyrr en í lok trías en þá náðu þær meira en 6 m lengd. Líkt og risaeðlurnar þróuðust krókódílar af boleðlum á síðtrías.


Tveir aðrir hópar sem algengir eru nú virðast einnig hafa komið fram á trías. Í öðrum þessara hópa eru froskar sem voru og eru lítil froskdýr. Elsti steingervingur sem sýnir nútímalegan frosk er frá árjúra en beinagrindur þeirra finnast í bergi frá trías. Hinn tegundahópurinn eru skjaldbökurnar sem búa yfir þeim eiginleika að geta dregið höfuð og hala inn í skelina.


Á síðtrías hafði tegundum þeleðla fækkað. Þær dýrategundir sem héldu velli lifðu meðal sífellt fjölgandi risaeðla, fjölskrúðugra boleðla og annarra mun smærri froskdýra og skriðdýra. Risaeðlurnar áttu eftir að drottna í lífríkinu það sem eftir var af miðlífsöldinni.