Botnsjávarlíf

Samlokur og sniglar urðu ekki eins illa úti í perm-útdauðanum og margir aðrir tegundahópar. Reyndar finnast samlokur líkt og ammonítar víða í setbergi frá ártrías þó svo að fjölbreytni þeirra sé ekki mikil. Bæði samlokum og sniglum fjölgaði mjög jafnframt því sem fjölbreytni þeirra óx þannig að tegundahópar þeirra urðu meðal þeirra mikilvægustu í upphafi miðlífsaldar. Líkt og á fornlífsöld grófu sumar samlokurnar sig niður í setið á meðan aðrar héldu sig á botninum.


Auk ammoníta og samloka ber nokkuð á armfætlum í seti frá ártrías en steingervingar annarra hryggleysingja eru sjaldgæfir. Armfætlur juku á fjölbreytni sína á trías og júra en svo fækkaði þeim skyndilega þannig að minna bar á þeim í höfum síðari hluta miðlífsaldar og þær eru fremur sjaldgæfar nú. Ef til vill má skýra hnignun þeirra með tilkomu nýrra tegunda rándýra undir lok miðlífsaldar. Af ígulkerum þekktust fremur fáar tegundir á fornlífsöld en þau juku fjölbreytni sína mjög á miðlífsöld. Sumar tegundir þeirra lifðu á botninum en aðrar grófu sig niður í setið og síuðu fæðuna úr gruggi.


Snemma á miðlífsöld fylltu hexakórallar það skarð sem útdauðir kórallar [tabula-rugosa] fornlífsaldar höfðu skilið eftir sig. Rif frá miðtrías voru lágar hæðir á sjávarbotni, varla meira en 3 m og höfðu þær flestar orðið til úr leifum tiltölulega fárra sjávardýra en undir lok trías voru rifin stærri og oft úr leifum fleiri en 20 tegunda.


Fyrstu kóralrifin mynduðust sum hver á miklu dýpi sem bendir til þess að fyrstu hexakórallarnir hafi ekki lifað í sambýli við ljóstillífandi þörunga eins og nú. Ef til vill var það ekki fyrr en seinast á trías eða snemma á júra þegar hexakórallar byrjuðu að mynda stór rif að þetta sambýli komst á. Með kóröllunum á júra-rifjunum uxu elstu gerðir núlifandi kalkþörunga. Þessar lífverur byggja upp varnarlag sem ver rifin fyrir ágangi brimöldunnar. Vegna velgengni samloka, snigla, ígulkerja og hexakóralla sem byggja upp rif var lífríki sjávarbotnsins á síðjúra líkara því sem nú þekkist en á fornlífsöldinni. Enn vantaði þó margar tegundir núlifandi liðfætlna en krabbadýrin, sem krabbar og humrar teljast til, byrjuðu þó að auka fjölbreytni sína á júratímabilinu.