Tommotian fánan

Mun fjölbreyttari steingervingafána kemur skyndilega í ljós um miðbik árkambríum — svokölluð tomotian-fána. Í henni er að finna steingerða harða líkamshluta sem engin leið er að flokka til fylkinga núlifandi tegunda eða lífvera sem steingerðust eftir að kambríum lauk.  Þarna er líka að finna fulltrúa tegundahópa sem nú lifa eins og svampar, sem eru afar frumstæð dýr.  Einnig er að finna steingervinga lindýra og armfætlur.


Sá fjöldi tegunda sem finnst í tommotian-fánunni bendir til þess að þróunin hafi tekið stórt stökk fram á við. Ekki er hins vegar ljóst hvers vegna þessir hörðu líkamshlutar þróuðust svo hratt. Tilgátur hafa verið uppi um breytt efnainnihald sjávar en sú tilgáta útskýrir ekki hvers vegna sumar skeljanna eru úr kalsínkarbónati og aðrar úr kalsínfósfati en þessi efni hafa ólíka efnafræðilega eiginleika. Líklegra er að skeljarnar hafi verið vörn gegn rándýrum í umhverfinu og tennur sem fundist hafa benda til þess að þau hafi verið komin fram á sjónarsviðið.


Á árkambríum blómstruðu dýr sem kallast bikardýr (Archaeocyatd) en þau eru af óljósum uppruna.  Lögunin á bikarlaga skál þeirra sem er úr kalsíum-karbónati bendir til lifnaðarhátta líkum og hjá svömpum.  Þessi dýr byggðu rif og lifðu frá ár- til miðkambríum.


Ránlífi dýra hefur fljótlega sett mark sitt á þróunina því að fyrstu fjölfruma dýrin hljóta að hafa lifað á einfrumungum og plöntum og hröð þróun utanáliggjandi stoðgrinda ber vott um að dýrin hafi þurft að verjast rándýrum.


Rándýr hafa ekki aðeins sett mark sitt á þróun harðra líkamshluta heldur drógu þau einnig úr líkum þess að dýr með mjúka líkamshluta varðveittust og yrðu að steingervingum, enda hafa þau ekki aðeins lifað ránlífi heldur einnig verið hræætur. Það skýrir e.t.v. hversu lítið er um steingervinga þeirra í sandsteini frá fornlífsöld borið saman við Ediacara-sandsteininn í Ástralíu sem varð til skömmu áður, síðast á forkambríum.