Síðari hluti fornlífsaldar
kola- og permtímabilin

Síðasti hluti fornlífsaldar nær yfir bæði kolatímabilið, þegar margir tegundahópar lífvera urðu ráðandi eins og sést í setlögum þessa tímabils, og permtímabilið þegar margar þessara lífvera dóu út í mesta útdauða sem orðið hefur frá lokum fornlífsaldar. ◊.


Á kolatímabilinu mynduðust mikil kalksteinslög úr hörðum líkamshlutum dýra og stór tré af ættbálki byrkninga uxu í fenjum þar sem leifar þeirra urðu að mó og síðar þykkum kolalögum.


Miklar sveiflur í loftslagi einkenndu miðja fornlífsöldina eins og greina má af berglögum og steingervingum frá þessum tíma. Jöklar breiddust út um heimskautasvæði Gondvanalands á kolatímabilinu en hörfuðu aftur á perm. Loftslag þornaði á landsvæðum nálægt miðbaug og varð það til þess að víðáttumikil gróðurlendi í fenjum drógust saman en það leiddi til útdauða trjáa af byrkningaætt og margra tegunda froskdýra. Í kjölfar þessa hófst uppgangstími fræplantna og skriðdýra sem líktust spendýrum.


Auk útdauðans gerðist annar afdrifaríkur atburður í lok fornlífsaldar þegar fellingahreyfing varð í Evrópu og austanverðri Norður-Ameríku við samruna Gondvanalands og Lárasíu.


Sjá Harz-fellinguna.


Jarðlagamyndun kolatímabilsins vakti fyrst athygli í Bretlandi 1822 og dregur hún nafn sitt af miklum kolalögum sem þá þegar höfðu verið nýtt um árabil. Reyndar er þykk og nýtanleg kolalög aðeins að finna í efri hluta setlagamyndunarinnar frá síðari hluta kolatímabilsins (320-286 Má) en í neðri hlutanum frá fyrri hluta kolatímabilsins eru kalksteinslög stór hluti jarðlaganna. Í Bandaríkjunum eru þessar myndanir aðgreindar og árkolatímabilið kallað Mississippian en síðkolatímabilið Pennsylvanian. Helstu kolanámasvæði jarðar eru við Don í Rússlandi, í Póllandi, Ruhr í Þýskalandi, í Belgíu, Norður-Frakklandi og á Bretlandi. Við jaðra Appalachíanfjalla í Bandaríkjunum urðu einnig til mikil kolalög, einkum í Pennsylvaníu.


Myndanir setlaga frá síðkolatímabilinu einkennast mjög af svokölluðum hringþemum sem stafa af hröðum sveiflum í sjávarstöðu á þessum tíma.