Þeleðlur  —   „skriðdýr áþekk spendýrum“

Á árperm voru segleðlur, pelycosaurar [Gr. πέλεκυς ; pelekus: tvíblaða exi; sauros: eðla], sem teljast til synapsida, algengar í lífríkinu. Af steingervingum má sjá að margar þeirra hafa lifað í fenjum og verið að hluta til lagardýr. Dimetrodon var eitt slíkra rándýra en það var á stærð við jagúar og hafði beittar skörðóttar tennur. |Tskriðdýr| ◊. Diadectes, stór ferfætlingur [tetrapod], grasbítur, sem líktist skriðdýrum og hefur hann etv. verið á meðal bráðanna. Á meðan rándýr eins og froskdýrið Eryops, sem líktist krókódílum, þurftu að gleypa bráðina í heilu lagi gátu Dimetrodon rifið stór dýr í sig. Gerð hauskúpunnar hjá Dimetrodon er á margan hátt lík því sem gerist hjá spendýrum og dýrum sem þróuðust af þeim.


Sjá flokkun skriðdýra og þróun höfuðbeina.


Á miðpermtímabilinu þróaðist sérstakur tegundahópur skriðdýra sem líktust spendýrum mjög. [árperm - árkrít; 275 – 100 Má] Þetta voru þeleðlur [Therapsida] en fætur þeirra stóðu beint niður undan líkamanum í stað skriðfóta eins og þekkjast hjá frumstæðum skriðdýrum og jafnvel segleðlunum. Auk þess voru kjálkar þeleðla flóknir og öflugir og tennur margra tegunda voru sérhæfðar, á vissan hátt líkar því sem gerist hjá hundum. Einkum var þetta áberandi hjá hundeðlum [cynodont]. Þær höfðu framtennur (nagtennur), stórar vígtennur til að stinga í og rífa bráðina og jaxlar til að tyggja fæðuna.


Margir sérfræðingar álíta að þeleðlur hafi verið með jafnheitu blóði [endotherm] sem þýðir að þau hafi haldið líkamshitanum stöðugum og vanalega eitthvað hærri en hitastig umhverfisins var hverju sinni. Hár líkt og hjá nútíma spendýrum getur hafa einangrað líkama þeleðla. Jafnvel þó að þessi dýr hafi verið með jafnheitu blóði þarf ekki að vera að þau hafi haldið líkamshitanum jafn stöðugum og gerist hjá spendýrum. Hvað sem öðru líður sýnir upprétt líkamsstaða og flókin líffæri til að tyggja fæðuna hjá þróuðum þeleðlum permtímabilsins að þau náðu álíka stigi og spendýr í þróun líffæra og hegðun.


Jafnheitt blóð [endothermic] er sérstaklega mikilvægt hvað varðar þol og snerpu til að eltast við bráð og flýja undan óvinum. Skriðdýr með „misheitu blóði“ [ectothermic] (með líkamshita svipuðum umhverfinu) verða aftur á móti að hvílast með vissu millibili til að draga til sín varma frá umhverfinu. Efnaskipti með jafnheitu blóði ásamt þróuðum kjálkum, tönnum og útlimum skýra líklega ekki aðeins velgengni þeleðla á permtímabilinu heldur einnig hnignun segleðla sem e.t.v. voru þó með jafnheitu blóði. Á meðan segleðlum fækkaði stöðugt á síðperm þróuðust þeleðlur og breiddust út. Meira en 20 ættir virðast hafa þróast á aðeins 5 eða 10 Má og þau voru sá tegundahópur sem mest bar á í landfánu síðperm. Þeleðlur virðast hafa verið dæmi um alveg nýja tegund dýra sem voru svo þróuð að þau gátu aukið fjölbreytni sína afar hratt.