Landflóra

Kolatímabilið dregur nafn sitt af plöntuleifum sem eiga ekki sinn líka á neinu öðru tímabili jarðsögunnar. Í lítt myndbreyttum kolalögum frá þessu tímabili má finna sæmilega varðveitta trjáboli og laufblöð þessara plantna. Kolalögin virðast fyrst og fremst hafa myndast í fenjum á láglendi þar sem fallin tré hlóðust upp í miklu magni, kaffærðust og náðu ekki að rotna. Þar eð margfalt magn af trjám þarf til að mynda 1 m3 af kolum er ljóst að gífurlegt magn af gróðurleifum hefur fallið til á þessum tíma.


Flóra árkolatímabilsins sem myndaði fremur lítið af kolalögum líkist flóru devontímabilsins. Þar var að finna margar tegundir sem voru fyrirrennarar tegundahópa er urðu áberandi á fenjasvæðum síðkolatímabilsins.


Svo er að sjá sem þróun plantna hafi beinst til margra átta í upphafi kolatímabilsins, en síðan þróast í fenjaflóru síðfornlífsaldar með tiltölulega fáum ættkvíslum og mörgum tegundum í hverri. Mikilvægastir voru jafnarnir sem komið höfðu fram á ár- og miðdevontímabilinu en voru þá einungis litlar plöntur. Þeir teljast til byrkninga og eru því háðir fenjum til að geta tímgast eins og áður hefur komið fram. Mikilvægustu ættkvíslir jafna á kolatímabilinu voru Lepidedendron og Sigillaria en þær lögðu fenjunum til margan trjábolinn sem síðan átti eftir að kaffærast og mynda kol. ◊. Lepidodendron virðist hafa vegnað einna best því að sumar tegundir ættkvíslarinnar hafa líklega náð allt að 30 m hæð og þvermál bols við jörðu verið um 1 m.


Burknar af fjölmörgum tegundum og plöntur líkar þeim mynduðu botngróður skóganna á síðkolatímabilinu. Þó svo að margar þessara plantna væru byrkningar voru þarna burknar sem virðast hafa fjölgað sér með fræjum, svokallaðir fræburknar en sökum þess hve erfitt er að greina fræburkna frá venjulegum burknum voru steingervingar þeirra ekki greindir til ólíkra tegunda fyrr en 1904. Margir þessara fræburkna voru stórir og líkir trjám.


Glossopteris var fræburkni berfrævingur og algengt tré á Gondvanalandi. Það hafði tungulaga laufblöð sem uxu í knippi á toppgreinum.


Mörg tré síðkolatímabilsins uxu utan kolafenjanna og reyndar uxu fræburknar og elftingar (sem teljast til byrkninga) einnig í talsverðri hæð yfir sjávarmáli. Steingervingar þessara trjáa eru algengari í sandi og leðju sem sest hefur til á flæðilöndum fljóta en í kolafenjunum.


Elftingar síðkolatímabilsins líktust þeim mýrelftingum sem við þekkjum nú. Sumar elftingar síðkolatímabilsins eins og þær sem tilheyrðu ættkvíslinni Calamites voru plöntur á stærð við tré.


Annar mikilvægur hópur síðkolatímabilsins sem óx á landi ofan fenjasvæðanna var Cordaites (Cordaitophyta). Þetta voru tré sem oft náðu 30 m hæð. Eins og fræplöntur voru þessi tré óháð fenjasvæðum og virðast hafa myndað stóra skóga líka furuskógum nú. Þessar plöntur teljast til berfrævinga líkt og núlifandi barrtré.


Flóran sem blómstraði á síðkolatímabilinu lifði fram á permtímabilið en hnignaði síðan. Til dæmis fundust fá tré af undirfylkingu jafna og elftinga og Codaites-trén hurfu alveg. Það vekur athygli að nær allir jafnar og elftingar sem lifðu út fornlífsöldina voru smáar lítt áberandi jarðlægar tegundir og sumar þeirra finnast nú sem „lifandi steingervingar“. Á permtímabilinu urðu berfrævingar og þá einkum barrtré ráðandi þurrlendisgróður. Flóra berfrævinganna sem breiddist út á síðperm hélt stöðu sinni á trías, júra og árkrít og eru þeir því oft álitnir einkennisplöntur miðlífsaldar. Miðlífsöldina einkenna e.t.v. frekar ný lífsform sem hófust með uppgangi dulfrævinga og risaeðla.


Kolaskógar: