Afstaða meginlanda

Sjávarstaða var yfirleitt há á sílúrtímabilinu og hafði hækkað frá lokum ordóvísíum, líklega vegna bráðnunar jökuls sem myndaðist í lok tímabilsins. Hækkun sjávarstöðu ýtti undir þróun sjávardýra því landgrunn stækkaði við áflæðið.


Á devontímabilinu fór sjávarborð lækkandi og loftslag varð hlýtt og þurrt og mikið var um myndun saltlaga (evaporit) og þá nær heimskautunum en áður hafði þekkst.


Kaledónísku fellingahreyfingunni lauk á árdevon  með myndun Lárasíu (ORS-meginlandið) en niðurrif fjallanna og rof hélt svo áfram á devon- og kolatímabilinu.


Í lok Kaledónisku fellingahreyfingarinnar er líklegt að Gondvanaland hafi legið mjög nærri ORS-meginlandinu (Lárentíu-Baltíku) í nokkurn tíma. Til þess bendir sjávarfána við Norður-Ameríku, Evrópu og Afríku frá þessum tíma. Hafi svo verið fjarlægðust þessi tvö meginlönd aftur hvort annað og sameinuðust síðan á ný þegar Lárasíu rak að Gondvanalandi og myndaði stórmeginlandið Pangeu (fyrir 320 - 200 Má) í Harz-fellingahreyfingunni á kola- og permtímabilinu.