Síð – frumlífsöld

Síð – frumlífsöld hófst fyrir 1.000 Má og einkenndist af miklu umróti. Upphaf dýraríkisins má greinilega rekja til þessa tíma og tilkomumesta atriðið er fjöldi vel varðveittra steingervinga frá síðustu 50 Má frumlífsaldar.


Eins og fram kom á mynd gengu amk. fjórar ísaldir yfir á tímabilinu frá 850 - 600 Má. Sú seinasta - Varangian - var þeirra síðust og einnig sú stærsta.


Svo er að sjá sem svokallaðir frumþörungar (acritarchar) hafi orðið fyrir miklum breytingum. Margar tegundir dóu út og aðrar komu í staðinn. Stuttu seinna steingerðust elstu leifar dýra víða á jörðinni og marka þeir upphafið að samfelldri þróunarsögu dýra til okkar daga.


Seinustu 30 Má frumlífsaldar varð ör þróun í lífríkinu. Það eru einkum þrenns konar steingervingar sem sýna fram á þetta: skriðför, steingerðir mjúkir líkamshlutar og stoðgrindur. Elstu greinilegu steingervingarnir í þessum flokkum eru uþb. 570 Má. Ef til vill hafa lík dýr komið fram tugum eða jafnvel milljónum ára fyrr þó að steingervingar þeirra hafi enn ekki fundist.


Þó svo að skriðför virðist ekki merkileg má þó lesa af þeim sögu þróunar því þau lýsa æ flóknari lifnaðarháttum.


Steingervingar mjúkra líkamshluta dýra frá þessum tíma líkjast marglittum og sæfjöðrum en þessi dýr teljast til fylkingar holdýra (Cnidaria, Coelenterates). Efasemdir eru nú uppi um það hvort þessi dýr séu skyld þessum núlifandi tegundum eða teljist til dýra sem löngu eru aldauða. Þekktustu dæmu um steingervinga þessara dýra fundust í Ediacara í Ástralíu og því er vitnað til þeirra sem Varangian- eða Ediacara-fánunnar.


Ljóst er að á þessum tíma voru komin fram þróaðri dýr en holdýr fyrir lok frumlífsaldar. Þeirra á meðal voru þróaðir tegundahópar eins og liðormar (annelida) en til þessarar fylkingar teljast ánamaðkar auk fjölmargra tegunda sem lifa í sjó. Einnig er þarna að finna fulltrúa fylkinarinnar liðfætlna en til hennar teljast krabbar, humar, og skordýr. Einnig er að finna frumstæð lindýr (molluska) sem virðist hafa skriðið eftir botninum líkt og snigill.


Steingerðar stoðgrindur hafa hingað til verið taldar elstar frá upphafi kambríum en nú hafa jarðvísindamenn fundið örsmáar skeljar víða í berglögum frá síðfrumlífsöld. Dýr með mjúkan líkama hafa auðsjáanlega gert sér þessar vasalöguðu skeljar úr kalsín-karbónati.


Mikið umrót virðist hafa orðið í lok frumlífsaldar, nánar tiltekið fyrir 870 - 540 Má því að í seti frá þessum tíma kemur fram sveiflukennd aukning 13C/12C. . Ástæðan fyrir þessari aukningu er óljós en e.t.v má skýra hana með miklum útdauða svifs í höfunum. Við það er álitið að mikið magn 12C hafi bundist í seti með dauðum órotnuðum lífverum. Súrefnið sem að öllu jöfnu hefði bundist við rotnun bættist þá við súrefni andrúmsloftsins og getur það hafa leitt til þess að súrefnismagn andrúmsloftsins varð álíka mikið og það er nú.


Strontínsamsætur sýna ennfremur að mikil virkni jarðhita var á þessum tíma og bendir það til mikilla eldsumbrota auk flekahreyfinga og myndunar fellingafjalla. Sveiflur í hlutfalli 87Sr/86Sr í karbónötum eru annars vegar háðar rofi meginlanda sem gefa hátt hlutfall og hins vegar eldvirkni á flekaskilum sem gefur lágt hlutfall. Óvenjulega lágt hlutfall 87Sr/86Sr í karbónötum í 900 - 600 Má seti bendir því til mikillar eldvirkni á rekhryggjum samfara jarðhniki og myndun eyjaboga og fellingafjalla.


Yfirlit yfir helstu viðburði frumlífsaldar


Sjá um eitt elsta tvíhliða dýrið.


Sjá yfirlit yfir frumlífsöld.


Sjá snjókúlujörð.